1.5.2008 | 22:51
Að vera orðlaus
Hvað á maður að blogga um þegar maður hefur ekkert að segja. Bara lýsa þessari hversdagslegu hamingju sem felst í því að sætta sig við lífið og tilveruna svona almennt. Ég tel sjálfa mig vera bara nokkuð hamingjusama manneskju, og talsvert lánsama. Ég á marga vini og kunningja, yndislega fjölskyldu, tvö sjarmerandi gæludýr (köttinn og naggrísinn) og ég lifi við tiltölulega mikið öryggi.
Auðvitað getur ýmislegt ógnað þessu hversdagslega öryggi mínu. Það er nóg sem hægt er að hafa áhyggjur af. Nefni sem dæmi útbreiðslu kjarnorkuvopna, geislavirkan úrgang og förgun hans, loftslagsbreytingar, heimskreppu, ollíukreppu og þá staðreynd að ýmis frumefni jarðar gætu gengið nánast til þurrðar innan 100 ára.
En hugvit mannsins er óendanleg auðlind og þess vegna aldrei að vita hvað mannkynið á eftir að gera næst. En ég er viss um að sá tími mun koma þegar ruslahaugar jarðarinnar verða grafnir upp aftur og þeir endurnýttir. Það kemur að því að við hættum að henda, sóa og týna og förum að spara og varðveita. Þá verður aftur hægt að gera við gömul sjónvarpstæki og það verður gert við gömlu skóna en þeim ekki fleygt. Er það ekki bara heilbrigð skynsemi?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.