Hækkandi verð á olíu og vandi ráðamanna

728px-eugene_delacroix_-_la_liberte_guidant_le_peupleÞað hefur löngum verið vitað að veraldlegt vald er vandmeðfarið, og að það spillir þeim sem með það fara.  Algjört vald spillir algjörlega.  Þannig voru Faraóarnir og Babýlóníukonungarnir í Gamla Testamentinu gjörspilltir af valdi og valdhroka.  Þeir voru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.  En af hverju er ég að nefna þetta.

Jú, vegna þess að íslenskir ráðamenn eru farnir að minna dálítið á Babýlóníukonunga.  Þeir fljúga um á einkaþotum, hitta erlenda höfðingja og líta á sjálfa sig sem alþjóðlegar stjörnur á heimsmælikvarða.  Þeir láta aka sér um á eðalvögnum og þegar örvæntingarfullir vörubílstjórar grípa til aðgerða heima fyrir verða íslenskir ráðamenn bara pirraðir, reiðir og svekktir.  

Undanfarið ár hefur bensínverð hækkað um 40%, kornverð fer hækkandi, það er ákveðinn skortur á matvælum í veröldinni og verð á sáðkorni hefur einnig farið hækkandi.  

Hvað ef það er olíukreppa í uppsiglingu?  Ef olíukreppa skellur yfir veröldina mun alþjóðavæðingin kafna í eldsneytisskorti.  Það mun ekki lengur borga sig að flytja kiwi frá Nýja Sjálandi til Íslands.  Allar samgöngur munu lamast.

Við skulum ekki gleyma því að franska byltingin hófst með brauðskorti.  Brauðskortur er hættulegur, olíuskortur ekki síður.  A.m.k. er hann hættulegur fyrir ráðamenn sem hugsa lítið um velferð og daglegt líf almennings. Hættulegur fyrir ráðamenn sem hunsa vörubílstjóra.

Nú er það svo að ég hef lesið mikið um bæði frönsku byltinguna og rússnesku byltinguna.  Mig langar satt best að segja ekkert sérstaklega að upplifa byltingu persónulega nema þá helst hugarfarsbyltingu. Byltingar eru sögulegar hamfarir, með yfirleitt grimmum blóðsúthellingum og átökum sem ekki eru eftirsóknarverð fyrir þá sem lenda í þeim.  En hugarfarsbyltingar eru aftur á móti frekar friðsamleg fyrirbæri.  Það er í huga hvers manns sem vinna þarf  sigur.  Það er með því að breyta hugarfarinu sem sigurinn vinnst að lokum.  Engu fæst áorkað með ofbeldi nema náttúrulega frönsku byltingunni - en hver vill lenda í slíkum hamförum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Frábær pistill, tek undir hvert orð.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.4.2008 kl. 00:44

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Átti stjórnarbyltingin mikla á Frakklandi upphaf sitt í því mikla eldgosi sem kennt hefur verið við Laka eða Skaftárelda? Gríðarlegt magn af ösku barst um alla heimsbyggðina og sortnaði víða í augu. Frægt er að  Benjamín Franklín sem var sendiherra nýstofnaðra BNA í París reiknaði út hve hátt sólin var komin yfir sjóndeildarhring loksins þá sjá mátti hana gegnum móðuna. Var þá sólin komin 19 gráður upp fyrir sjóndeildarhringinn! Næstu ár varð víða uppskerubrestur sem ekki var bætandi á slæmt ástand og var það þó einna verst í Frakklandi. Kóngur var mjög dýr í rekstri og vildi fá sína tekjustofna hvað sem ástandinu í landinu liði. Þjóðin varð að herða sultarólarnar til að kóngsi fengi sitt refjalaust.

Ætli megi ekki einnig bera saman suma nútímastjórnendur veraldlegs valds við þetta afleita stjórnarfar? Þó svo að faróar og babílónskir kóngar hafi einnig verið misvitrir þá getum við einnig séð fyrir okkur fyrirmyndir slæmra valdsherra okkur nær í tíma og rúmi.

Með þeirri ósk og von að augu nútíma faróa megi opnast fyrir þeim að þeir verði að taka til höndum og stjórna í þágu þjóðarinnar allrar en ekki fyrir þrönga hagsmuni valda og spillingar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 28.4.2008 kl. 08:43

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Bylting hugarfarsins og virkjun hugarorkunnar er það , sem þarf...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 28.4.2008 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband