Ryðgað járn - sagan af honum Fúsa

Heilbrigðisfulltrúinn horfði með vanþóknun á málmhrúguna sem gnæfði mikilúðleg fyrir utan fyrirtækið Bílar og húdd ehf. Hann tók fram stafrænu myndavélina, stillti fókusinn, og smellti af mynd. KLIKK! Þar með var brotið staðfest.


- Hey hvað ertu eiginlega að gera, sko? hrópaði mjóróma mannsrödd og Fúsi aðaleigandi Bíla og húdda ehf. kom þjótandi út úr fyrirtækinu í bláum vinnuslopp reyrðum um mittið. Hann var með hamar í annarri hendinni. Heilbrigðisfulltrúinn teygði úr sér og gerði sig sem stærstan.


- Þessi ruslahrúga hjá þér er farin að teygja sig yfir á lóðirnar í nágrenninu og við höfum fengið kvörtun. Þú verður að gjöra svo vel að fjarlægja þetta járnarusl eða það verður flutt burt af yfirvöldum á þinn kostnað, samkvæmt reglugerð nr. 338/2001 og Evróputilskipun 35/251/EC.


- En þetta er ekki járnarusl, - þetta eru verðmæti ... sko - þetta er eftirlaunasjóðurinn minn - ég ætla að nota þetta járn ... sko til þess að smíða bíla...


- Smíða bíla, ? sagði heilbrigðisfulltrúinn tortrygginn og gretti sig. Hann ætlaði nú ekki að trúa hverju sem er.


-Já ... sko fornbíl, frændi minn á gamlan enskan MG sportbíl sem hann ætlar ... sko að leyfa mér að gera upp. Aðeins örfáir svoleiðis bílar á landinu.


- Og hvenær ætlar þú að byrja á þessu verki ? Ég vil helst losna við þessa járnhrúgu sem allra fyrst. Ég minni þig á að samkvæmt reglugerðum 457/1999 og 36/2003 hefur borgin rétt til að grípa til aðgerða.

 

- Jaaa, sko, þetta tekur allt smá tíma, ... sko ... frændi minn er á Spáni núna að gera upp hús fyrir Íslendinga - hann er sko ... smiður ... sko. En ég þarf ...sko að nota allt járnið ... sko. Ég byrja kannski á næsta ári ... já, á næsta ári, .... alveg örugglega ... sko.


- Ég er hræddur um að ég geti ekki beðið svo lengi. Það hefur verið kvartað yfir umgengninni hjá þér áður. Getur þú ekki geymt þetta járn innandyra ?


Fúsi hrökk við. - Innandyra, sko ... neeeeeeiiii ... það er sko ekkert pláss innandyra... Ég er að geyma nokkra bíla fyrir frænku mína og síðan er einn gamall Saab 900i sem ég er að vinna við ... algjör eðalvagn...


Heilbrigðisfulltrúinn stundi og skrifaði eitthvað niður í blokkina sína. - Hvernig er það eiginlega með þína fjölskyldu - geta þessar frænkur þínar og frændur ekki geymt bílana sína sjálf ?


Fúsi horfði tærum sakleysissvip á heilbrigðisfulltrúann og sagði síðan í barnslegri einlægni – Sko ... þú veist nú hvernig þetta er ... fjölskylda er nú einu sinni fjölskylda ... sko ... maður verður að bjarga ættingjum sínum og járnið er auðvitað verðmæti, sko... jaaáá, ... hreint og klárt verðmæti...


Heilbrigðisfulltrúinn þagði í smá stund og horfði inn í sakleysisleg gráblá augu Fúsa. Hann horfði á grátt hárið sem stóð út í loftið og brúna rák af mótorolíu sem lá eftir öðrum vanganum og niður í bláan sloppinn. Síðan leit hann á járnhrúguna sem stóð hrikaleg, rústrauð og teygði sig til himins.


- Ætli ég gefi þér ekki frest... sagði fulltrúinn mæðulega og reyndi í huganum að rifja upp reglugerð nr. 358/1998 eða var það reglugerð nr. 369/1998. - Þú færð frest í þrjár vikur til þess að taka til á lóðinni hjá þér og koma öllu í betra horf. Ég vil ekki þurfa að fá fleiri kvartanir þín vegna ...- og þú mátt ekki geyma neitt drasl á lóðum annarra hér í nágrenninu skv. Evróputilskipun 456/56/EC. Þú verður að halda öllu á þinni eigin lóð.


Fúsi beygði sig og hneigði sig og nikkaði ákaft með kollinum. - Jááá, ég skal sko...já ... gera það. Ég vil ekki standa í neinum erjum við nágrannana eða yfirvaldið - ó nei, alls ekki... og þetta eru nú verðmæti,...já verðmæti... Fúsi blikkaði augunum og brosti tanngulu brosi. Það vantaði eina framtönn í efri góm.

Heilbrigðisfulltrúinn reif blað úr blokkinni sinni og rétti Fúsa. - Hérna færðu kvittunina og við viljum sjá að þú takir til hér sem allra allra fyrst. Ég kem og lít til þín aftur eftir þrjár vikur.


Fúsi greip blaðið skjálfandi hendi og brosti um leið. Heilbrigðisfulltrúinn renndi upp rennilásnum á bláa jakkanum og kinkaði kolli um leið og hann gekk í áttina að bílnum sínum. Hann fann til dapurleika. Hann grunaði að eftir þrjár vikur yrði allt við það sama. Það var eins og draslið í borginni yxi af sjálfu sér og þetta var ekki í fyrsta skipti sem kvartað var yfir Fúsa. Best að gefa karlinum smá tíma hugsaði fulltrúinn um leið og hann skellti bílhurðinni.


Fúsi settist niður við lítið eldhúsborð með plastdúk á kámugu verkstæðinu og fékk sér Frón kremkex. Kaffið var volgt og hálfsúrt. Hann horfði á almanak með mynd af Ungfrú Vesturlandi 2003. Hann hafði þrjár vikur til stefnu. Ungfrú Vesturland brosti til hans seiðandi og heillandi brosi. Það var eins og hún vildi draga hann til sín inn í jökulinn. Kvenfólk. Fúsi var næstum því búinn að gleyma því hvernig það leit út. Konan hans sáluga hafði dáið úr krabba fyrir meira en tíu árum. Fúsi tók með olíubrúnum höndum utan um skiptilykilinn og sneri sér að Saabnum. Hann strauk með hægri hendinni mjúklega og varlega yfir gyllt lakkið. Hvílíkur eðalvagn, upprunalega í eigu málarameistara í Keflavík. Hann hafði komist yfir hann fyrir algjöra heppni þegar fimmti eigandinn, kona á fimmtugsaldri hafði ætlað að farga bílnum í Vöku. Farga bílnum ! Hvernig datt fólki slík vitleysa í hug ? Henda verðmætum? Fúsi ætlaði sko ekki að láta þau mistök henda sig.


Í þrjár vikur hugsaði Fúsi ekki um neitt annað en Saabinn. Hann þurfti að skipta um gírkassa. Það var það eina sem gat klikkað í Saabnum – gírarnir. Og þessi skrýtni siður hjá Svíunum að skilja bílinn alltaf eftir í bakkgír. Og svissinn var niðri á milli sætanna. Þessara mjúku plusskenndu sæta. Fúsi var u.þ.b. að fara að loka verkstæðinu og ganga frá fyrir nóttina þegar hann sá bláklæddan heilbrigðisfulltrúa, þrjóskulegan á svip með blýant og blokk standa gleiðfættan við hliðina á risavaxinni járnhrúgunni á miðri lóðinni. Æi – hann hafði gleymt bévítans járninu. Nú voru nágrannarnir enn einu sinni orðnir vitlausir.


Heilbrigðisfulltrúinn var mjög þrjóskur að eðlisfari en hann hafði samt þá trú að hann væri sæmilega sanngjarn maður. En nú var honum misboðið. Járnhrúgan hafði einungis stækkað á þeim þremur vikum sem liðnar voru og ekkert benti til þess að brotamaðurinn iðraðist synda sinna eða ætlaði að bæta um betur. Heilbrigðisfulltrúinn stundi og tók fram blokkina.


- Ég get sko útskýrt þetta, sagði Fúsi með bænarrómi og það vottaði fyrir örvæntingu í svipnum. – Ég hef sko verið mjög önnum kafinn undanfarið,... það voru sko gírarnir ... já gírarnir...ég sver það... ég var bara alveg búinn að gleyma þessu.


- Fékkst þú ekki bréf frá Reykjavíkurborg þar sem vísað var í reglugerð nr. 78/1993, Evróputilskipun 356/56/EC og þú beðinn um að fjarlægja draslið skilyrðislaust ? sagði Þorsteinn þvermóðskulega og það var þungt í honum hljóðið.


-Ha,...bréf,sko...nei...ég ... fæ ekki alltaf póstinn...ég skil hvort eð er ekki þessi formlegu bréf...ég er bara einn hérna...engin skrifstofa sko...það getur svo sem vel verið að það hafi komið bréf... maður fær nú svo oft bréf frá yfirvöldunum...sko...já skattinum ...ekki má gleyma skattinum...sko.


Heilbrigðisfulltrúinn horfði með þrjóskusvip á Fúsa. Hvernig fór karlfauskurinn að því að lifa af í nútímaþjóðfélagi ? Kunni hann ekki að lesa ? Fulltrúinn horfði inn í sakleysisleg augu Fúsa og bráðnaði. Kannski kunni karlgreyið bara alls ekki að lesa. Kannski var hann einn af þessum örfáu sem kunnu ekki á internetið og fylgdust ekki með því sem var að gerast. Kannski var þetta mál fyrir Félagsþjónustuna. Heilbrigðisfulltrúinn horfði á olíusmurðar hendur Fúsa og bláan sloppinn. Karlgreyið leit út eins og hann hefði ekki borðað ærlega máltíð dögum saman.


- Ef þú tekur ekki til á lóðinni hjá þér innan einnar viku þá neyðist ég til þess að áminna þig – sagði heilbrigðisfulltrúinn þunglega, með mikilli alvöru í röddinni. Hann yrði einhvern veginn að gera karlinum það ljóst að honum væri alvara. – Og ef þú sinnir ekki áminningunni þá flytjum við allt járnið burt á þinn kostnað og það verður dýrt. Við viljum ekki fá fleiri kvartanir þín vegna.


- En þetta eru sko verðmæti... sagði Fúsi, tók upp ryðgaðan járnbút og strauk honum mjúklega með hendinni. – Og sko... ég skil ekki af hverju nágrannarnir...sko... eru að kvarta. Þeir eru sko sjálfir með stóran gám á lóðinni hjá sér. Það er hægt að smíða mikil listaverk úr svona járni...


Heilbrigðisfulltrúinn stundi. – Það kemur málinu ekki við. Það hefur verið kvartað yfir umgengninni hjá þér og þú verður að taka til á þinni lóð. Þú ert að brjóta að minnsta kosti þrjár reglugerðir og eina Evróputilskipun. Ég gef þér viku frest í viðbót. Annars færðu áminningu.


Fúsi beygði sig lítillega fyrir heilbrigðisfulltrúanum og brosti vingjarnlega. - Ég skal þá taka til sko ... strax á morgun... ég lofa því... Hann strauk kámugri hendinni um úfið og tætt grátt hárið og gekk hægt til baka í átt að verkstæðinu.


Þremur vikum síðar stóð stór rauður vörubíll og þrír menn frá hverfismiðstöð borgarinnar fyrir utan verkstæðið hjá Fúsa og virtu fyrir sér málmhrúguna. Gul hjólaskófla gerði sig líklega til þess að fjarlægja efstu járnbútana. Það heyrðist ískrandi skraphljóð þegar stál mætti járni. Þá kom skyndilega grannvaxinn fullorðinn maður í bláum vinnuslopp hlaupandi út úr fyrirtækinu Bílar og húdd ehf., klifraði óvenju fimlega (miðað við aldur) upp á málmhrúguna og hengdi sig utan í hjólaskófluna. Skóflan nam staðar og maðurinn hékk kyrr á skóflunni. Blái sloppurinn blakti eins og fáni í vindi.


- Hvað ertu að gera öskraði einn af mönnunum þremur frá hverfismiðstöðinni – ertu brjálaður ? – Þið skuluð sko láta járnið mitt í friði sko, hrópaði mjóróma mannsrödd.


Hjólaskóflan stóð fyrst kyrr en seig svo hægt niður og lét manninn í bláa sloppnum snerta jörðina. Hann stóð á fætur og steytti hnefana í áttina að gröfustjóranum. Mennirnir þrír gerðu sig líklega til þess að grípa fullorðna manninn en hann stökk aftur fimlega upp á járnhrúguna. Í sömu mund kom lögreglubíll akandi eftir götunni. Daginn eftir mátti lesa stutta frétt í Dagblaðinu á þriðju síðu neðarlega undir fyrirsögninni: Lögreglan handtók óðan verkstæðiseiganda í Höfðahverfi. Til hliðar var mynd af gráhærðum manni í bláum vinnuslopp sem gerði tilraun til þess að berja þrekinn lögreglumann í aðra öxlina með hamri. Á bakvið sást gul hjólaskófla moka járnarusli upp á vörubílspall.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Hafði gaman af þessari sögu af horfinni verðmætasýn og möppudýraveldi dagsins í dag.

Ævar Rafn Kjartansson, 14.4.2008 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband