10.4.2008 | 22:53
Pólitískur hráskinnaleikur og blekkingar í fjölmiðlum
Ég er fyrst og fremst vísindamaður, andófsmaður og þýðandi en ekki stjórnmálamaður. Ég neyðist þó stundum til að skipta mér af stjórnmálum þegar farið er beinlínis rangt með vísindalegar staðreyndir eða þegar reynt er að ljúga að almenningi.
Íslendingar eru upp til hópa svo illa að sér í umhverfismálum, að þeir halda að umhverfismál séu bara pólitík.
Umhverfismál eiga rætur sínar að rekja til ákveðinna niðurstaðna raunvísindanna og það er til sérstök grein innan raunvísindanna sem heitir umhverfisvísindi, síðan eru til umhverfisefnafræði, umhverfiseðlisfræði og aðrar slíkar greinar sem tengjast inn í umhverfisvísindin.
Umhverfisefnafræðin segir okkur að ákveðin efnahvörf eigi sér stað í andrúmsloftinu. Efnahvörf þessi eru algjörlega ópólitísk og lúta bara ákveðnum náttúrulögmálum. Skv. þessum efnahvörfum eru mengandi lofttegundir sem maðurinn losar út í andrúmsloftið að breyta samsetningu þess. Og samkvæmt þeim mælingum og þeim niðurstöðum vísindanna sem eru að berast til okkar um allan heim, er jörðin og loftslag hennar að taka breytingum.
En ekki hér á Íslandi. Íslendinga vita alltaf allt best sjálfir, jafnvel þótt að þeir séu margir illa menntaðir í raunvísindum og geti ekki lesið efnaformúlur. Egill Helgason er einn af þessum sjálfskipuðu og sjálfmenntuðu sérfræðingum okkar í loftslagsmálum. Ekki veit ég hvað Egill fékk í efnafræði í menntaskóla en hann er greinilega viss um að hann viti allt um eðlis- og efnafræði andrúmslofts jarðar. Egill þykist vera algjör sérfræðingur í kolefnishringrásinni. Síðan fær hann með sér annan snilling, einn pólitískasta efnafræðing landsins, - Glúm Björnsson og saman skemmtu þeir sér við að gera grín að vísindasamfélagi veraldarinnar - af því að þeir vita jú allt betur, þessir tveir, en allt vísindasamfélag heimsins.
Egill Helgason vitnaði líka óspart í bloggara sér til stuðnings. Hvílíkar gæðaheimildir. Ekki datt Agli Helgasyni eða Glúmi Björnssyni í hug að vitna í Michael B. McElroy, yfirmann umhverfisstofnunar Harvard Háskóla, enda er Michael B. McElroy ekki sammála Agli Helgasyni eða Glúmi Björnssyni í loftslagsmálum. Edward O. Wilson, einn kunnasti líffræðingur heims er heldur ekki sammála Agli og Glúmi.
Staðreyndin er sú að á Íslandi er það Ríkisstjórnin og Flokkurinn sem reynir að stjórna hugsanagangi fólks og hann stjórnar reyndar flestum fjölmiðlum líka. Flokkurinn krefst hlýðni og hollustu og flokksmenn verða að fara eftir Flokkslínunni. Á Íslandi er ekki lengur skoðanafrelsi, hugsanafrelsi, málfrelsi eða ritfrelsi. Flokkslínan segir að Íslendingar eigi að þegja, borða hval, borga okurvexti, og tala af hroka og fávisku um loftslagsbreytingar.
Og á meðan að Egill Helgason segir íslensku þjóðinni að loftslagsbreytingar séu bull í anda Flokksins, heldur ísinn á Kilimanjaro áfram að bráðna, snjórinn í Ölpunum hverfur hratt, þurrkar í Afríku aukast, Bangladesh fer að sökkva í kaf, eyjar í Kyrrahafinu hverfa undir sjávarmál, kóralrif hvítna og eyðileggjast, lífverur og heilu lífkerfin færa sig um set eða deyja út, skordýraplágur aukast, og malaría breiðist út.
Hvenær ætlar mín íslenska þjóð að losa sig undan oki Flokksins að byrja að horfast í augu við raunveruleikann?
Minni í þessu sambandi á skrif Zceslaw Milosz um pólska kommúnistaflokkinn og hvernig hann reyndi á sínum tíma að hafa áhrif á hugsanagang fólks. Þeir sem ekki eiga Milosz geta í staðinn lesið Machiavelli.
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil. Ég gæti ekki verið meira sammála þér. Votlendismál, stjórnsýlsa, menntunarleysi og alger skortur á fagþekkingu hjá mörugum sveitarstjórnarmanninum sem hefur leyfi til að selja náttúruauðlindir - Urriðafoss t.d., án þess að þurfa að leita til nokkurra fagaðila.
Þá var stórmerkilegt viðtal á Rás 2 að ég held á þriðjudag í Síðdegisútvarpi Rásar 2 - um fyrirlestur Al Gore. Þar sátu Hannes Hólmsteinn Gissurarson og veðurfræðingur sem mig minnir að heiti Björn.
Aftur og aftur sagði stjórnmálafræðingurinn Hannes Hólmsteinn, að honum dytti ekki til hugar að þykjast vita allt um veðurfræði eða umhverfisfræði,(enda auðmjúkur með eindæmum eftir að hafa verið dæmdur fyrir að eigna sér skrif Nóbelsverðlaunaskálds) EN HANN VISSI SAMT AÐ ÞAÐ HEFÐI EKKI HLÝNAÐ SÍÐAN 1998. Ef gerð væri kúrfa sem hæfist 1998 þá sýndi hún klárlega að ekki hefði hlýnað síðan þá. Það var merkilegt að heyra í kennara frá Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun okkar, finnast eðlilegt að miða framtíðarhorfur mannkyns á kúrfu sem hæfist 1998 til 2008 í milljóna ára sögu jarðar.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 10.4.2008 kl. 23:17
Góðan dag! Má til með að bæta við að umhverfismál og umfjöllun um þau eru líka grundvölluð á vísindum og fræðum hug- og félagsvísinda því til að setja tölulegar upplýsingar raunvísindanna í nauðsynlegt samhengi verður að þekkja vel til samfélaga og menningarkima tegundarinnar Homo sapiens. Það er jú sú tegund sem er upphaf og endir svokallaðra umhverfismála, það er hún sem upphaflega skilgreindi það svið og fór að safna upplýsingum um það, reyna að skilja það og vonandi læra af því. Mest lærir hún kannski um sig sjálfa, ef hún hefur vilja til, og við það hjálpa aðferðir og niðurstöður raunvísindanna sem eru jú verk vísindamanna af fyrrnefndri tegund, sem aftur eru úr ákveðnu félagslegu og menningarlegu samhengi og því háðir því hvað varðar forsendur starfsemi sinnar en ekki síður hvernig þær eru mótteknar og túlkaðar.
Áfram á þessari braut, Ingibjörg!
Kveðja, Helga Ö.
Helga Ögmundardóttir (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 09:56
Komdu sæl Ingibjörg
Ég vona að það plagi þig ekki að ég bæti þessari athugasemd við svona löngu eftir að færslan er skrifuð en ég var bara að rekast á færsluna nú í þessu.
En ég ætla að leyfa mér halda að ástæða færslunnar sé viðtal Egils við Glúm Jón Björnsson í silfrinu þann 6.apríl síðastliðinn og ég get ekki séð betur en að færsla þín sé að mestu leyti strámaður. Egill og Glúmur voru ekki að fjalla um loftslagsvísindin í heild sinni heldur staðreyndavillur í mynd Al Gore's, An Inconvenient truth.
Egill lýsir því aldrei yfir í viðtalinu að hann hafi einhverja sérþekkingu á lofthjúp jarðar og það gerir Glúmur Jón heldur ekki, gagnrýni þeirra snýr fyrst og fremst að fyrrnefndri mynd og maður hefði haldið að það hefði öllum verið ljóst sem þáttinn sáu.
Umfjöllun Egils var þó ekki lokið þarna heldur tekur hann aftur upp þráðinn á síðu sinni þriðjudaginn 8.apríl þar sem nokkur rökræða á sér svo stað í framhaldinu, en eftir að hafa lesið í gegnum færsluna og athugasemdir hefi ég ekki fundið neitt sem styður mál þitt Ingibjörg.
kv.
Bjarni (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 03:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.