1.4.2008 | 21:43
Gaman að kenna
Þótt ég starfi nú að langmestu leyti við þýðingar og textavinnslu þá hef ég verið að kenna aðeins hér á Selfossi. Bæði hef ég kennt í Fræðsluneti Suðurlands, svo og hef ég prófað að kenna í FSU sem stundakennari. Það er skemmst frá því að segja að mér finnst kennslan afskaplega gefandi og skemmtileg að öllu leyti nema það að launin hafa ekki verið neitt sérstaklega spes. En ég hef verið einstaklega heppin með nemendur og fengið að kenna mörgu úrvalsfólki.
Nú er það svo að ég á ekki langt að sækja kennaragenin, enda faðir minn prófessor, afi minn líka og móðir mín hefur alla tíð verið barnakennari. Þannig að sennilega er ég barasta með kennaragenið í mér sem Kári í íslenskri erfðagreiningu hefur örugglega áhuga á að einangra og skoða nánar.
Ekki hef ég þó áhuga á því að fá að vita meira um genamengi mitt a.m.k. ekki persónulega. Mig langar t.d. ekkert að vita það hvort að ég er í sérstökum áhættuhópi varðandi einhverja skelfilega sjúkdóma. Til hvers að hafa áhyggjur af því fyrirfram hvort að maður fái eitthvert sjaldgæft heilkenni í ellinni eða bullandi hjartveiki?
En kennslan er skemmtileg og það er gott að vera innan um fólk og umgangast nemendur og aðra kennara. Síðan sit ég líka mikið heima við þýðingar og ritstörf (og blogg auðvitað). En ég er afskaplega sátt við líf mitt eins og það er í dag. Loksins er ég orðin nógu gömul til að vita hvað ég vil gera og hvað ég vil ekki gera. Og þrátt fyrir allt krepputal virðist alltaf vera nóg að gera hjá mér og þetta er líka spurning um það að vera dugleg að skapa sér verkefni og búa til verkefni, sé eitthvað lítið að gera, sem er nú svosem aldrei a.m.k. ekki þegar ég er annars vegar.
Ég ætti kannski að vera með námskeið varðandi það hvernig maður á að skapa sér starfsvettvang utan Reykjavíkur? Hef reyndar verið að hugsa um að skrifa bók sem myndi heita:
1001 starf sem þú getur unnið utan Reykjavíkur.
Viss um að hún yrði metsölubók.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Þú ættir kannski að spyrja Kára hvort hann sé tilbúinn til að greina kennaragenið í þér.
Steingerður Steinarsdóttir, 3.4.2008 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.