29.3.2008 | 19:11
Glöggt er gests augað
Glöggt er gests augað og ég hef verið að ræða við ferðamenn og innflytjendur hér á Íslandi sem skilja ekki alveg hvernig Íslendingar hugsa. Dæmi: Hér á Íslandi flokkum við ekki sorp heldur hendum öllu almennt á sömu öskuhaugana. Af hverju gerið þið þetta segja hinir erlendu gestir. Vitið þið ekki að eftir 20-40 ár verður eitrað kvikasilfur og kadmíum farið að leka úr þessum eitruðu sorphaugum ykkar auk þess sem þeir verða fullir af gasi. Er ekki viturlegra að flokka lífræna sorpið frá og henda ekki rafhlöðum á haugana?
Fleira skilja erlendu gestirnir ekki. Af hverju leggið þið ekki áherslu á að útbúa fleiri gangstíga um landið ykkar þannig að landið geti tekið á móti fleiri ferðamönnum án þess að skemmast? Af hverju seljið þið ekki aðgang inn í þjóðgarðana til þess að fá fé til þess að vernda þá náttúru sem þar er að finna. Af hverju spyrjið þið ekki ferðamenn sem hingað koma fyrirfram hvert þeir ætla að fara þannig að ekki þurfi að leita að þeim uppi um fjöll og firnindi þegar þeir lenda í villum?
Af hverju verndið þið Íslendingar ekki náttúruna, fyrirbyggið að hún eyðileggist og vinnið það starf sem þarf til þess að landið geti tekið á móti fjölda fólks án þess að skemmdir verði á umhverfinu? Af hverju byggið þið virkjanir og álver þegar miklar líkur eru á því að þorskstofninn hafi minnkað vegna þess að framburður ánna kemst ekki lengur til sjávar? Af hverju eru Íslendingar svona ákafir að eyðileggja land sitt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.