21.3.2008 | 22:40
Alexander Púshkin
Alexander Púshkin er nokkurs konar Shakespeare Rússlands. Hann var ljóðskáld sem skrifaði fyrstu rússnesku skáldsöguna í bundnu máli, Evgenij Onegin. Einnig skrifaði hann kvæðið fræga um Bronsriddarann sem lýsir Pétri mikla. Púshkin er þjóðskáld Rússa, en hann hefur ekki verið eins þekktur á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum og landar hans Tolstoj og Dostojevskij.
Ein ástæðan er sú að það er mjög erfitt að þýða Púshkin svo vel sé. Sum ljóð hans eru með hrynjandi sem kallast jambískur tetrameter. En það er samt hægt að þýða Púshkin á sama hátt og mögulegt er að þýða nánast hvað sem er. Helgi Hálfdánarson sýndi fram á að hægt er að þýða Shakespeare yfir á íslensku og því ætti að vera a.m.k. mögulegt að þýða Púshkin líka yfir á íslensku, ensku eða önnur tungumál veraldarinnar.
En það er furðuleg þessi þögn sem ríkir um Púshkin. Á meðan Dostojevskij og Tolstoj eru þýddir mörgum sinnum, er enginn sem leggur til atlögu við Púshkin. Samt er Púshkin faðir rússneskra bókmennta, eins konar Jónas Hallgrímsson rússneskrar tungu.
Það getur verið að ég prófi að spreyta mig á Bronsriddaranum. Ég þarf a.m.k. að æfa mig í rússneskunni.
Athugasemdir
Ég á bara eina Púskinsögu á rússnesku. Gaman væri að fá Bronsriddarann á íslensku.
Sigurður Þór Guðjónsson, 22.3.2008 kl. 02:48
Fróðleg og skemmtileg færsla. Gleðilega páska.
Steingerður Steinarsdóttir, 22.3.2008 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.