12.3.2008 | 20:01
Orkuæði og flokksgæðingar
Það er greinilegt að það er sterkur þrýstihópur sem vill knýja í gegn álver í Helguvík. Nú á að beita hnefarétti og valta yfir allt og alla. Það liggur við að umhverfisráðherra sé sagt að skipta sér ekki af því sem henni kemur nú samt svo augljóslega við. Hótanir liggja í loftinu! Ef við fáum ekki að fara í Þjórsárvirkjanir þá verður ekkert netþjónabú! Ef við fáum ekki álver í Helguvík þá förum við í fýlu.
Það gleymist að flestir landeigendur við Þjórsá vilja ekki sjá Þjórsárvirkjanir. Til hvers ættu Sunnlendingar yfirleitt að samþykkja að Þjórsá sé fórnað fyrir álver á Suðurnesjum. Þetta er að vísu sama kjördæmið, en samt ekki alveg sama tóbakið, eða hvað?
Er ekki kominn tími á eldgos á Reykjanesi? Ætli Árni Sigfússon hafi sagt bandarískum fjárfestum frá því að þeir séu að byggja á virku eldfjallasvæði? Kannski endar þetta alltsaman með því að það rennur hraun yfir álver og Reykjanesbæ eins og gerðist í Vestmannaeyjum. En af hverju að taka tillit til náttúrunnar. Hún hefur aldrei skipt neinu máli fyrir þá menn sem vilja álver í Helguvík þannig að af hverju ættu þeir að vara sig á þeim hættum sem náttúran felur í sér. Það er nefnilega ekkert afl eins sterkt og máttugt á jörðinni eins og eldgos, ekki einu sinni Kauphöllin í New York og Dow Jones geta gert neitt ákveði jörðin að taka til sinna ráða.
Athugasemdir
"Það gleymist að flestir landeigendur við Þjórsá vilja ekki sjá Þjórsárvirkjanir. " Hvar hefur þetta komið fram?
Gestur Guðjónsson, 12.3.2008 kl. 22:04
Af hverju kemur þú ekki bara hingað austur og spyrð þá sjálfur? Það er alls ekki fámennur hópur heimamanna sem er á móti Þjórsárvirkjunum heldur mjög stór og öflugur hópur. Landsvirkjun reynir bara að breiða yfir þetta og segja að einungis sé um fáa einstaklinga að ræða sem er fjarri því að vera rétt.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 13.3.2008 kl. 07:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.