8.3.2008 | 22:20
Í draumi sérhvers manns
Í draumi sérhvers manns er fall hans falið sagði skáldið og mig hefur lengi dreymt um það að bjarga veröldinni. En upp á síðkastið hef ég verið hálf lasin, bara slöpp og einhvern veginn ekki í stuði til þess að leika Móður Theresu eða Nelson Mandela. Öll baráttu- og góðgerðarstarfsemi hefur því þurft að sitja á hakanum. Auk þess hef ég verið að lesa Birting eftir Voltaire og er alltaf að komast meira og meira á þá skoðun að mannkyninu sé bara ekki við bjargandi.
Ekki það að homo sapiens sapiensis er einungis um 150.000 ára þannig að hann hefur ekki verið lengi á Jörðinni. Þessi dýrategund, hinn "vitiborni" maður, virðist hins vegar vera á góðri leið með að tortíma sjálfum sér um aldur fram, ekki síst hin sjaldgæfa undirtegund homo sapiens sapiens islandisensis. Undanfarna mánuði eru menn farnir að tala um kreppu og óáran og hefur sjaldan heyrst eins mikill barlómur bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Ástandið er þó sérstaklega slæmt á Íslandi þar sem skuldugasta þjóð heims býr miðað við höfðatölu.
Ég get þó huggað einhverja með því að þótt mannkynið þurrkist e.t.v. út af sjálfs síns völdum, þá munu dreifkjörnungar, bakteríur, frumstæðir fjölfrumungar og skordýr lifa áfram. Það er því smá sjéns að endurfæðast sem flatormur í næsta lífi, þ.e. hjá þeim sem eru svo bjartsýnir að trúa á næsta líf. Aðrir verða að láta sér nægja að ganga inn í hringrás náttúrunnar sem efnasambönd og enda kannski sem hluti af látlausum fífli sem brosir á móti sól. Síðan eru það náttúrulega þeir fáu sem munu sjá dýrð himinsins en um það verður ekki rætt nánar hér enda um leyndardóma eilífðarinnar að ræða.
Athugasemdir
Er ekki allt í góðu Ingibjörg mín?
Kolbrún Baldursdóttir, 9.3.2008 kl. 20:49
Meina með heilsuna og það allt.
Kolbrún Baldursdóttir, 9.3.2008 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.