6.2.2008 | 04:45
Hugsað til liðinna tíma
Ég var svo heppin að fá að kynnast afa og ömmu vel í uppvextinum og bjó meira að segja hjá þeim í um eitt og hálft ár. Sigurður Gísli Sigurðsson, afi minn var landlæknir og berklayfirlæknir en amma mín Bryndís Ásgeirsdóttir kenndi m.a. leikfimi og spilaði listavel á píanó. Þegar ég var krakki hafði afi byggt reisulegt hús að Ægissíðu 70 í Reykjavík og hann átti sjónvarp. Ég man ennþá að við keyrðum í gegnum hálfa borgina til þess að horfa á fréttirnar í svart-hvíta sjónvarpinu hans afa. Einkum var það pabbi sem var spenntur fyrir fréttunum, en á þessum tíma var bara ein sjónvarpsrás og ekkert sjónvarp á fimmtudagskvöldum.
Á þessum tíma áttum við heima í Breiðholtinu, nánar tiltekið að Maríubakka 12, og þar var mikið af krökkum og oft glatt á hjalla. Mér er minnisstætt þegar ég var að læra að hjóla og sleppa hjálpardekkjunum. Einnig eru mér minnisstæð krakkastyrjaldirnar sem geisuðu stundum á milli bakkanna og ollu miklum hugaræsingi en litlum sárindum. Yfirleitt var þó allt í bakkahverfinu með friði og spekt. Ég man óljóst eftir að hafa tínt krækiber í móa sem seinna varð að Seljahverfi.
Svona líður tíminn hratt og bakkarnir í Breiðholtinu eru orðnir grónir og ráðsettir, og sjónvarpið hans afa löngu liðin tíð.
Athugasemdir
Tíu ára gamall bjó ég einn vetur í vesturbæ Rvk. hjá móðurafa mínum Ásgeiri Magnússyni (kenndi sig við Ægissíðu,Vatnsnesi) og Unni stjúpömmu. Þetta var veturinn 68-69 og fyrstu kvöldin grét ég mig í svefn, því eingöngu var horft á fréttir og veður og svo -Maður er nefndur-. Ég hafði nefninlega kynnst Kanasjónvarpinu 7 ára gamall!!!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 7.2.2008 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.