5.2.2008 | 11:02
Um daginn og veginn
Eina huggunin þegar maður liggur heima með pest er að geta hugsanlega lesið eitthvað (á milli hóstakastanna). Þannig hef ég verið að lesa bæði Davíð og Matthías Joch. og mér hefur liðið næstum því eins og brjóstveikum stúdent í lærða skólanum á 19. öld.
En eins og Dostojevskij benti svo vel á í Glæp og refsingu, þá er ekkert rómantískt við hitasóttir, kulda og vosbúð. Verst var alltaf að búa í kvistherbergi í gamla daga, vegna þess að þar var rakinn mestur og kaldast. Auk þess hvein í öllu þegar stormar geisuðu. Davíð Stefánsson bjó í kvistherbergi í einni af ferðum sínum til Noregs og þakið lak og vindurinn gnauðaði inn um götin.
Þegar ég bjó í kvistherbergi á Keilugrandanum hélt ég oft að þakið ætlaði að rifna af þegar norðangjósturinn var sem naprastur og ekkert skjól af Esjunni. En nú er ég semsagt komin niður á fyrstu hæð og dettur ekki í hug að flytja aftur upp á kvist. Það er nóg að hafa búið einu sinni í kvistherbergi.
Það er nú samt alltaf eitthvað rómantískt eftir á að geta rætt um fátæktina á námsárunum en í raun og veru er fátækt samt ekkert rómantísk í raun og veru. Ekki þegar hún bítur eins og Hannes Smárason hefur þurft að upplifa undanfarnar vikur. Það er aumt að eiga ekki 6 milljarða í skotsilfri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.