3.2.2008 | 07:45
Snert hörpu mína
Var að ljúka við að lesa ævisögu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Sagan er lipurlega skrifuð og er afskaplega skemmtileg aflestrar einkum framan af. Í ævisögunni kemur vel fram að Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hefur alla tíð verið ljúfur og góður drengur sem lét sér annt um mennina og mannlífið allt. Saga Davíðs er falleg og látlaus eins og maðurinn sjálfur og er þessi ævisaga vel þess virði að lesa hana.
Núna á ég bara eftir að lesa ævisögur Matthíasar Jochumsonar og Hannesar Hafsteins, og jú ég á víst eftir að lesa seinna bindið af "Jóni Sigurðssyni".
Hlakka til að eiga eftir að lesa svona mikið af góðum bókum. Hlýtur að vera uppbyggilegt og auðgandi fyrir andann eins og Þórbergur sagði þegar hann keypti sér stóru reykjarpípuna. Sem betur fer reyki ég nú ekki og hef aldrei reykt. En Þórbergur reyndi að svæla sig upp í hæstu hæðir eins og hann lýsir í bók sinni Íslenskum aðli.
Einnig á ég allt ritsafnið hans Davíðs Stefánssonar þannig að nú er ljóðalestur framundan.
Athugasemdir
Sæl Elsa, þessi bók er nú ekki á borðinu hjá mér. Er á fullu að sinna bókarlistanum í leshringnum. Næst er það nýja bókin hans Jóns Kalmans. Var að ljúka við Flugdrekahlauparann sem er mögnuð
kv
KB
Kolbrún Baldursdóttir, 3.2.2008 kl. 22:03
Ég er með þessa bók heima og hún bíður eins og margar góðar eftir að vera lesin. Ég er líka með Ljóðhús ævisögu Sigfúsar Daðasonar sem fékk bókmenntaverðlaunin um daginn og hlakka mikið til að byrja á henni.
Steingerður Steinarsdóttir, 5.2.2008 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.