27.1.2008 | 13:11
Um fordóma gagnvart geðsjúkdómum - Britney Spears o.fl.
Nú hefur mikið fjölmiðlafár verið í kringum Britney Spears sem greinilega á við einhverjar geðsveiflur að stríða. Fordómar vestrænna samfélaga gagnvart geðsjúkdómum kristallast mjög greinilega í þessari umræðu sem gerir grín að Britney og þeim hremmingum sem hún er lent í. Einnig er umræðan um Ólaf F. Magnússon hér á Íslandi óvægin og miskunnarlaus. Að vísu má spyrja sig þeirrar spurningar hvort að Ólafur hefði átt að taka að sér að vera borgarstjóri? Um mjög lýjandi og erfitt stjórnunarstarf er að ræða og ekki víst að Ólafur sé í nógu góðu formi til þess að takast á við hlutverkið. Hitt er annað mál að það að þjást af þunglyndi er ekkert öðruvísi en það að þjást af t.d. slitgigt í baki eða svæsnu ofnæmi. Hvoru tveggja veldur óþægindum og getur komið venjulegum vinnudegi úr skorðum. Það er ekki víst að maður sem þjáist af miklu ofnæmi treysti sér í erfitt stjórnunarstarf.
Fordómarnir gagnvar Britney Spears og Ólafi F. valda öllu því fólki sem þjáist af geðröskunum vandræðum. Í hverri einustu fjölskyldu eru einhverjar geðraskanir en fordómarnir gera það að verkum að fólk veigrar sér við að ræða málin opinberlega. Einnig eru margir fársjúkir sem vilja ekki fara til geðlæknis af því að þeir/þær/þau eru hrædd við stimplun og "stigma". Nýlega var sýnd mjög góð mynd um geðhvarfasýki með Stephen Fry þar sem hann lýsir reynslu sinni af bipolar disorder.
Nú er það svo að það eru um 500 milljónir manna í heiminum sem búa við einhvers konar geðraskanir og flestar manneskjur missa einhvern tímann stjórn á sér yfir langa mannsævi. Einungis lítill hluti þeirra sem þarf aðstoð vegna geðraskana fær aðstoð. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur geðsjúka einstaklinga þá vanræktustu í öllu heilbrigðiskerfi veraldarinnar. Er ekki kominn tími til þess að ræða um geðraskanir og geðvernd á ábyrgan og hreinskilinn hátt?
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil.
Ágúst H Bjarnason, 27.1.2008 kl. 16:42
Við eigum langt í land með að líta á geðsjúkdóma sömu augum og aðra sjúkdóma. Líkami okkar er ekkert annað en efnafræði og orsakir geðsjúkdóma liggja þar, rétt eins og orsakir magasárs og fleiri sjúkdóma. Þess vegna á að vera hægt að ræða um þessa sjúkdóma á sama hátt.
Ástæðan fyrir umræðu um sjúkdóm Ólafs er að hann hefur engan varamann. Umræðan ætti að snúast um það. Dómgreindarleysi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks er engu minna en Ólafs og kemur sjúkdómi hans ekkert við.
Hér í bloggheimum hafa útsendarar Sjálfstæðismanna verið hvað iðnastir við að fjalla um veikindi Ólafs og með ótrúlega ósvífnum hætti sakað mótmælendur í Ráðhúsinu um að hafa vísvitandi ætlað að koma honum í rúmið. Þar finnst mér umræðan komast á hvað lægsta planið. Anna Karen er með ágætis úttekt um þetta hér.
Kristjana Bjarnadóttir, 27.1.2008 kl. 17:34
Takk fyrir góðan pistil
Erna Bjarnadóttir, 27.1.2008 kl. 21:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.