22.1.2008 | 21:04
Um aðalritarann Brézhnév og hugsjónamanninn Nelson Mandela
Nú var það svo að eftir að Brézhnév, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, var orðinn aldinn og utan við sig þá var valdaklíkan í kringum hann hrædd um að missa völdin. Þessvegna dressuðu þeir Leonid Brézhnév upp í sitt fínasta púss, leiddu hann fram á Kremlarmúra og sýndu hann lýðnum til þess að ekki færi nú á milli mála hver stjórnaði hinum víðfeðmu Sovétríkjum. En Brézhnév sjálfur var löngu hættur að þekkja það fólk sem hann var látinn heilsa. Hann var algjörlega utan við sig. Samt sem áður tókst valdaklíkunni að halda í völdin þangað til leiðtoginn dó. Þá spiluðu þeir jarðarfararmarsinn eftir Chopin og börðust eins og hundar og kettir um að ná aftur völdum. Chernenko varð hlutskarpastur en hann var líka hundgamall og veikur og entist ekki nema í nokkra mánuði. Þá kom þungaviktarmaðurinn Júrí Andropov, og hefði örugglega haldið Sovétríkjunum á floti nokkra áratugi í viðbót, ef hann hefði ekki einnig orðið jarðarfararmarsinum að bráð stuttu síðar. Þegar þessi gamalmenni voru öll úr sögunni, var loksins kominn tími fyrir hinn raunverulega leiðtoga. Sá leiðtogi hét Michail Gorbachev og hann átti eftir að breyta gangi sögunnar.
Það sem skortir í íslenskum stjórnmálum í dag eru raunverulegir leiðtogar. Hvar er Nelson Mandela Íslands? Hvar er Martin Luther King jr. ? Einu leiðtogarnir sem ég þekki í íslenskum stjórnmálum sem hafa raunverulegan eldmóð og hugsjónir eru þingmenn og borgarfulltrúar VG. Ég treysti á ykkur!
Athugasemdir
Sammála, þó leynist einn og einn annars staðar.
María Kristjánsdóttir, 22.1.2008 kl. 23:51
Alltaf fróðlegt og skemmtilegt hjá þér.
Viðar Jónsson, 23.1.2008 kl. 01:20
Það var einn þarna sem hét Davíð Oddsson og hvort sem maður var sammála honum eða ekki þá var hann dálítill leiðtogi.
Vinstri grænir hafa margir hverjir hugsjónir sínar á tæru en það dugar ekki eitt og sér til þess að vera alvöru leiðtogi. Sama má eflaust segja um heittrúaða frjálshyggjupostula. Hvað þarf meira til að verða alvöru leiðtogi kann ég ekki en það er kannski ekki alveg við því að búast að það séu margir með eiginleika Nelson Mandela eða Martin Luther King eða Gandhi hérlendis í fámenninu. En okkur vantar held ég að minnsta kosti einn og það með hraði!
eir@si, 23.1.2008 kl. 16:42
Eir: Davíð Oddsson hefur aldrei verið mikið fyrir lýðræðið, hann hefur viljað njörfa niður stjórnkerfið sem sterkur stjórnandi í anda Il Principo eftir Macchiavelli.
Hins vegar ætti nútímaleg stjórnarskrá Suður Afríku sem Nelson Mandela að hafa æskileg áhrif á endurskoðun stjórnarskrárinnar á Íslandi. Mandela setur fyrst fram ákvæði um mannréttindi, sú íslenska byrjar á að útfæra valdið, hver gerir hvað og hvaða heimildir hver hefur og þó tæplega það. Síðan eru ákvæði um lýðræðið í stjórnarskrá Mandela þar sem sett er fram raunhæf leið að tryggja og framfylgja mannréttindum. Sú íslenska þegir þunnu hljóði um lýðræðið en um mannréttindi er fjallað í síðasta kafla hennar eins og afgangsstærð.
Margt mætti yfirfæra úr þessari framsýnu stjórnarskrá Suður Afríku sem varð til í einhverri mestu deiglu mannréttinda undir hrammi Apartheid stefnunnar alræmdu. Ótrúlegt er að þarna var unnt að sneiða framhjá alvarlegum átökum, uppgjöri og byltingu. Það er eitt mesta afrek mannkynssögunnar sem vafalaust verður lengi uppi.
Valdataflið í Ráðhúsi Reykjavíkur á vafalaust að halda áfram. Spurning er hversu sterkur hinn nýi borgarstjóri er. Það þarf bæði sterk bein og góð úrræði til að stýra apparati eins og borgarstjórn Reykjavíkur er og ekki er fyrirkomulagið eins beisið og það þyrfti að vera. Borgarfulltrúar eru allt of fáir og réttur minnihluta er nánast enginn. Með nútímalegra fyrirkomulagi mætti koma í veg fyrir svona kollsteypur eins og virðist ætla að verða á nokkurra mánaða fresti.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 25.1.2008 kl. 09:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.