6.1.2008 | 21:03
Eitraðir málmar í flugeldum
Flugeldar innihalda ýmsa eitraða og misholla málma eins og Barium, Strontium, kopar og jafnvel kóbalt. Meira að segja kopar er málmur sem er nauðsynlegur lífverum í mjög litlu magni, en eitraður fari hann yfir ákv. mörk. Erlendis hafa menn verið í vandræðum með koparþök þar sem kopar hefur losnað af þökum í rigningu og runnið út í ár og vötn og valdið dauða lífvera.
Eituráhrif málma eru hrein efnafræði og hafa ekkert með skoðanir manna á flugeldum að gera. Það er hins vegar athyglisvert að ekki skuli vera rætt meira um eituráhrif flugelda, og þau eiturefni sem þeir skilja eftir sig í borgum og bæjum. Í flugeldum getur einnig verið kvikasilfur.
Nú koma flestir flugeldanna frá Kína, og ekki eru þar miklar mengunarvarnareglugerðir eins og hér. Ef eitthvað á eftir að draga úr efnahagsþróun í Kína, þá er það vegna mengunar en fólk deyr þar vegna loftmengunar. Í París er talið að um 700 manns fái krabbamein ár hvert vegna umferðarmengunar þannig að eitthvað svipað eða meira hlýtur að gerast í Beijing. Auk þess eiga Kínverjar ekkert jarðnæði eða landrými heima hjá sér, sem er reyndar alvarlegt mál.
Er ekki annars kominn tími til þess að taka þessi flugeldamál til gagngerrar endurskoðunar? Ég krefst þess í nafni frelsisins að ég fái frelsi til þess að þurfa EKKI að anda að mér flugeldareyk. Aðrir mega anda að sér þeirri ólyfjan sem þeir vilja.
Athugasemdir
Sammála
Að þessu sinni voru flutt inn í landið um 1300 tonnum af flugeldum. Það eru milli 17 og 18 kg á vísitölufjölskylduna! Á Slysavarðstofuna kemur ætíð um öll áramót og um Þrettándann nokkrir með brunasár, núna í kvöld sá Mosi þar barn með blautt handklæði og andlitið var allt rautt og þrotið eftir bruna. Það var par ekki fögur sjón. Annað barn var þar fyrr í dag með 3 brunna fingur.
Því miður er allt of mikið um það að fólk sé að leika sér að eldinum.
Flugeldasala sem tekjustofn fyrir björgunarsveitir er mjög gamaldags aðferð. Margt mælir á móti henni. Aukið álag á heilbrigðiskerfið sem ekki er of beisið. Gríðarleg mengun bæði brennisteinsmengun og það sem verra er: ýmsir þungamálmar á borð við kadmium og strontium sleppa út í umhverfið og við sitjum uppi með þessi miður æskilegu efni. Þá er eld- og slysahættan mikil þegar fólk oft undir áhrifum er að kveikja í flugeldunum. Og svo má ekki gleyma þessum gríðarlega miklu fjármunum sem eytt er á altari sýndarmennskunnar.
Björgunarsveitir eiga að fá opinberan stuðning frá Ríkissjóði og frá sveitarfélögunum.
Sem tillögu vill Mosi setja fram: flugeldar verði ekki leyfðir en sveitarfélög kaupi þjónustu björgunarsveita að halda veglega flugeldasýningu sem verktakar. Það ætti ekki að skipta björgunarsveitirnar miklu máli hvort þeir selji þjónustu sína einum aðila eða mörgum smærri. Með því gætu björgunarsveitirnar auk þess sparað sér gríðarlegan auglýsingakostnað sem og kostnað við sölu.
Þá eiga björgunarsveitir skilyrðislaust að setja fram gjaldskrá yfir þjonustu sína. Hvað skyldi kosta að sækja kærulaust fólk upp á hálendi þegar fyrirséð væri kolvitlaust veður? Sendir eru tugir velþjálfaðir björgunarmenn með fullum útbúnaði, jafnvel þyrlu. Ef fólk kaupir sér ekki tryggingu í þessu skyni verður það sjálft að borga brúsann en ekki samfélagið! Þessi háttur er nánast hvarvetna og er björgunarsveitunum ekki til framdráttar, því miður að hafa þessa mikilvægu þjónustu ókeypis.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.1.2008 kl. 22:32
Þessi umræða heldur örugglega áfram og endar eflaust með því að þessu stjörnustríði verða takmörk sett. En eini kosturinn sem ég sé við fjáröflun af þessu tagi frekar en opinber framlög er að þá koma kannske einhverjir peningar úr "svarta hagkerfinu" inn í þessa starfsemi sem annars skiluði sér ekki í samfélagsleg verkefni af þessu tagi. Sem dæmi gegt ég nefnt að þegar ég fór í bankann fyrir jólin til að taka út 3 fimmþúsundkalla spurði gjaldkerinn hvernig ég vildi þetta. Jú bara fimmara hrökk út úr mér. Já það er gjaldmiðill dagsins sagði hann og sagði mér síðan að þarna kæmu menn sem tækju jafnvel út hundruð þúsunda í reiðufé til að gera upp við menn sem væru að vinna fyrir þá.
Erna Bjarnadóttir, 9.1.2008 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.