Gæludýr lengja lífið

PetsFyrir nokkrum árum sýndu niðurstöður rannsókna að gæludýraeigendur hafa lægri blóðþrýsting og lifa almennt lengur en aðrir menn.  Í tilviki hundaeigenda er nærtækasta skýringin hin daglega gönguferð sem hundarnir fara með eigendur sína í, en kattaeigendur hljóta að verða svona afslappaðir af því að horfa á kettina sína sofa. 

Hvað ketti varðar, þá lækkar Vampy örugglega blóðþrýstinginn hjá mér.  Hann biður mig um að slappa af með sér í a.m.k. hálftíma á dag.  Óskar nærveru minnar og sofnar í fanginu á mér.  Það er fátt eins afslappandi og sofandi mjúkur köttur í kjöltunni.

Hundar skapa mikla hreyfingu í kringum sig og það er meinhollt að fara alltaf í gönguferð hvernig sem viðrar.  Hundunum er alveg sama hvort að það er rigning eða snjór, út skal fara þ.e. ef hundi er út sigandi.   Ég veit um lækni sem sagði við eldri konu að ef hún væri ekki svona dugleg að fara út með hundinn þá væri hún öruggleg komin á hjúkrunarheimili.  Þannig hugsa hundarnir vel um eigendur sína ekki síður en eigendurnir um hundinn.

Að lokum langar mig að minnast kvæðis Jóns Helgasonar, skálds (Á afmæli kattarins):

"Mjúkur, með kirfileg kampahár

kemurðu að dyrum í morgunsár

upp þig úr munnvatni allan þværð,

augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk

er ég um kverk þér og vanga strauk,

ekki er mér kunnugt um annað tal,

álíka sefandi og kattarmal. "


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæl og blessuð Ingibjörg Elsa og gleðilegt ár.
Ég get svo vel trúað því að gæludýr lengi lífið. 
Nú er einmitt komið að því á þessum bæ að fá gæludýr annað en hænurnar 7 sem eru hér í kofa úti í garði og hafa svo sannarlega verið gleðigjafar.

Við erum á biðlista að fá hvolp af dalmatíukyni og verður sá draumur að veruleika kannski nú í sumar ef allt gengur að óskum.

Ég aðallega hlakka til en kvíði þessu einnig smá. Ég vil standa mig vel í þessu hlutverki en veit að það er krefjandi og ýmislegt mun eflaust breytast.
Aðallega spyr maður sig hvort þrif aukist til muna og hvað ef maður er lengi burtu eða þarf að fara til útlanda. Hundahótel hafa aldrei virkað aðlaðandi en er samt eini valkosturinn hjá mörgum sem þarfnast pössun fyrir gæludýrin sín.

Alla vega,  nú er að hrökkva eða stökkva.

Bestu kveðjur til bóndans og takk fyrir skemmtilegar stundir á liðnu ári.
Kv.
Kolbrún

Kolbrún Baldursdóttir, 4.1.2008 kl. 20:30

2 Smámynd: Einar Steinsson

Ef þú sérð fram á að þú þarft að fara að hreyfa þig meira, fáðu þér hund.

Minn hvutti gefur engin grið hvort sem það er grenjandi rigning, snjóbylur eða mannskaða rok, þú skalt hundskast út og hreyfa þig góði, engan aumingjaskap!!! Þannig að hvað hunda varðar kemur þetta ekki á óvart.

Hvað önnur gæludýr varðar? Er það ekki bara það að þessi fénaður sem er að sniglast í kringum mann, trufla mann og skemma fyrir manni (kötturinn labbar reglulega þvert yfir lyklaborðið og reynir að veiða músina á skjánum þegar ég er að gera eitthvað mikilvægt) eykur lífsgleði og ánægju og leiðir hugann frá leiðindum og hverstaksleikanum. Það hlítur að vera holt og lengja lífið.

Einar Steinsson, 4.1.2008 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband