Hreinn heilaþvottur

bild2_litenÝmsir Íslendingar tala mikið um hreina orku um leið og þeir tala um hreinn gróða.  "Hrein orka" er orðasamband eins og perestrojka í Rússlandi.  Sé það endurtekið nógu oft síast það inn í sálina og myndar þar svartan drullupytt. 

Sannleikurinn er sá að það er ekki til neitt sem heitir hrein orka.  Allir orkugjafar hafa neikvæð áhrif á umhverfi og náttúru, þar er bara stigsmunur á.  Jarðhitavirkjanir eru ekki einu sinni sjálfbærar nema öllu affallsvatni sé dælt niður aftur þannig að kerfið endist að eilífu.  Slíkt er ennþá ekki mögulegt.  

Jarðhitavirkjanir losa H2S, CO2 (a.m.k. 30.000 tonn stykkið), SO2 og ýmis önnur gös.  Affallsvatn frá jarðhitavirkjunum sem m.a. rennur út í Þingvallavatn, inniheldur arsen, blý, kadmíum og kopar.  Leiðslur jarðhitavirkjana verða að liggja ofanjarðar, ekki er um að ræða huldar leiðslur (hulduleiðslur?) heldur leiðslur sem eru mjög sýnilegar og sjáanlegar eins og í tilfelli Hellisheiðarvirkjunar.  Jarðhitavirkjun er þannig námavinnsla á jarðhitasvæðum og að segja að hún sé hrein orka er blekking og í raun hrein lygi.  

Vatnsaflsvirkjanir valda spjöllum með stórum uppistöðulónum.  Þær sökkva landi, eyðileggja fiskistofna, hindra rennsli aurs og silts til sjávar, breyta grunnvatnsstöðu, og valda rofi við ströndina.  Egyptar eru ekki ennþá búnir að ná sér eftir byggingu Aswan stíflunnar sem er smám saman að eyðileggja Egyptaland.   Ekki getur Aswan stíflan eða Kárahnjúkar flokkast undir hreina orku.

Það er því ljóst að "hrein orka" er slagorð eins og perestrojka, notað af valdhöfum til þess að slá ryki í augu heimsins.  Við eigum víst skv. skipun að ofan að trúa á hreina orku en því miður hef ég a.m.k. tileinkað mér önnur trúarbrögð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Athyglivert!

Það er mikið deilt um þessi viðkvæmu umhverfismál og alltof sjaldan heyrist í fólki eins og þér; fólki sem býr að þekkingu.

Árni Gunnarsson, 27.12.2007 kl. 08:46

2 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Svo ef jarðhiti er eingöngu virkjaður til rafmagnsframleiðslu, en ekki hitaveitu, nýtist aðeins um 12 % af því sem upp kemur.  88 % fara til spillis.

Pétur Þorleifsson , 27.12.2007 kl. 11:22

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Hæ vinkona

Já meira að svona fróðleik fyrir landann. Það eru alltaf fórnir og þetta með afrennslið í Þingvallavatn held ég að almenningur hafi ekki hugmynd um. Kveðjur í Erlurimann.

Erna Bjarnadóttir, 27.12.2007 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband