Penninn er beittari en sverðið!

Nú er það svo að allir sem þekkja mig vita að ég er mjúk manneskja, já alveg eins og ský í buxum sbr. Majakovskij.  Ég er dagfarsprúð og kurteis og hendi aldrei rusli á gangstéttir.  Ég fer meira að segja eftir öllum umferðarreglum og hef það fyrir reglu að sá víki sem vitið hefur meira.  En um leið og ég sest niður og blogga er fjandinn laus.  Penni minn er nefnilega beittur og stundum geta ég verið bæði skörp og snörp í skrifum.  Þessi bloggútgáfa af mér er semsagt miklu harðari og beittari en nokkru sinni ég sjálf.  Kannski er líka knöppu bloggforminu um að kenna.  Blogg er listform sem liggur einhversstaðar á milli prósaljóðs og skáldsögu.  Mér finnst ég hafa náð allgóðu taki á þessu knappa listformi, og stundum nota ég það sem satíru eða skrifa í ádeilustíl.  Kannski er alltof mikil bjartsýni hjá mér að halda virkilega að það sé hægt að breyta heiminum, einkum þegar við lifum eins og við gerum á síðari tímum amríska heimsveldisins (sem fer heldur hnignandi).  Og sjálfsagt er hámark bjartsýninnar að halda að hægt sé að hafa áhrif á heimsmyndina með bloggi einu saman.  En einu góðu hefur bloggið þó áorkað.  Ég er alveg hætt að senda greinar í Moggann eftir að ég uppgötvaði bloggið, og sumir í fjölskyldunni hafa lýst því með feginsandvarpi að ég sé núna "Bara að blogga".  Það gæti semsagt verið verra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband