Haraldur talar um sjávarflóð

ingenieureDr. Haraldur Ólafsson ræddi í útvarpinu í gær um hættu á sjávarflóðum vegna loftslagsbreytinga.  Nefndi hann sérstaklega Seltjarnarnesið sem dæmi en þar varð á sínum tíma hið mikla Básendaflóð. Það var ánægjulegt að heyra að Haraldur viðurkennir veruleika loftslagsbreytinga, og er ekki að taka undir efasemdarraddir olíufélaganna sem eiga að sjálfsögðu hagsmuna að gæta.  Ekki taldi Haraldur skynsamlegt að byggja mikið á landfyllingum úti í sjó, hann sagði að menn yrðu þá að nota vatnshelt parkett á neðstu hæðirnar í húsunum.  Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hefur einnig bent á heimsku þess að byggja á landfyllingum þegar allir vita að sjávarstaða fer almennt hækkandi og hætta á sjávarflóðum eykst. 

Dr. Sigurður Sigurðsson afi minn kenndi mér að alltaf skyldi maður sýna fyrirhyggju og horfa langt fram í tímann.  Hugsa þyrfti til langs tíma þegar ákvarðanir væru teknar.  Fyrirbyggja þyrfti slys og koma í veg fyrir manntjón.  Það er ljóst að vilji stjórnvöld og borgaryfirvöld í Reykjavík hugsa til langrar framtíðar munu þau ekki byggja hús sín á sandi úti á landfyllingum nema til standi að nota húsin einungis í 10-15 ár.  Ef byggja á til framtíðar verður að byggja á öruggum grunni.  Annað er kæruleysi. 

Setja þyrfti verkfræðinga strax í það verkefni, að skrifa skýrslu um hugsanleg sjávarflóð vegna loftslagsbreytinga og aðgerðir sem hugsanlega þarf að grípa til í því sambandi.  Verkfræðiþekkingin er hér sem oftar lykilþekking til þess að hægt sé að draga úr afleiðingum alvarlegra loftslagsbreytinga. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Vel mælt vinkona. Ég er farin að svipast um eftir íbúð í Norðlingaholtinu áður en allt fer á kaf hér. Nei í alvöru þá er það skammsýni að fara að flytja efni eða dæla af sjávarbotni undir landfyllingar hér vesturfrá. Geldinganes, Álfsnes og Kjalarnes hljóta að rúma nokkuð af fólki. Nóg er umferðin í gegnum bæinn.

Takk fyrir innlitið í kvöld, kveðjur í Erlurimann. Erna

Erna Bjarnadóttir, 15.12.2007 kl. 20:51

2 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Skelfing er sorglegt að sjá fólk fara rangt með alkunnar staðreyndir.

Þessi Haraldur Ólafsson, sem líklega er veðurfræðingur, er sagður hafa "viðurkennt veruleika loftslagsbreytinga" og er þá ekki ljóst hvort hann var að miða við "Litlu ísöld" um 1600, eða landnáms-hlýindin um 1000. Þeir sem kynnt hafa sér málið, vita að síðustu 10 árin hefur meðal-hitastig andrúms Jarðar staðið í stað. Hugsanlega er hita-ferillinn á niðurleið, um þessar mundir.

Það sem eru þó miklu verri mistök, er fullyrðing um að Básendar séu á Seltjarnarnesi. Eins og flestir vita, eru Básendar á milli Hvalsness og Hafna. Hvort þessi rangfærsla er raunverulega komin frá Haraldi eða misskilningur Ingibjargar, er ég ekki í aðstöðu til að dæma um.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2007 kl. 14:34

3 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Jónas Kristjánsson
31.05.2005 DV
Næst á að drekkja okkur Básendaflóð fyrir tveimur öldum gekk yfir Kolbeinsstaðamýri og gerði Seltjarnarnes að eyju í nokkra daga. Annað eins flóð kemur aftur vegna sveiflna í samspili náttúruafla, örugglega á þessari öld, af því að yfirborð sjávar hækkar örar en áður vegna hnignunar íss á Norðurhöfum og Grænlandi.

Búast má við mannslátum í Kolbeinsstaðamýri og í Kvosinni í næsta stórflóði. Ráðamenn skipulags hafa aldrei tekið neitt tillit til náttúruafla, hvorki til snjóflóða og skriðufalla á Vestfjörðum og Austfjörðum né til flóða við Suðvesturland. Þess vegna hefur verið byggt niður í sjó í höfuðborginni.

Gera má ráð fyrir vandræðum við sjávarsíðuna, þar sem gólf eru í innan við fimm metra hæð yfir stórstraumsflóði. Slíkar aðstæður eru á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, af því að pólitíkusar og skipulagsstjórar hafa engan áhuga á þeim fimbulkröftum, sem felast í úthöfunum og lofthjúpnum.

Nú hefur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna í Reykjavík lagt fram tillögur, sem munu leiða til, að margfalt fleiri borgurum en ella verði drekkt í næsta Básendaflóði. Ráðgert er að þenja byggðina út í Hólmann, Akurey, Engey og Viðey og byggja stór hverfi yfir hafsbotni umhverfis eyjarnar.

Við skulum láta liggja milli hluta, að flokkurinn hefur ekki reynt að kanna áhrif byggðar í sjó á innviði gatnakerfisins, til dæmis á flutningsgetu Hringbrautar og Sæbrautar. Líklega verður hægt að leggja slíkar götur í stokka til að þjónusta hugmyndafræði flokksins, en það mun kosta morð fjár.

Meira máli skiptir, að bara kollar sumra eyjanna ná upp í fimm metra hæð. Sjálfstæðismenn verða að láta flytja ógrynni af jarðvegi út í eyjarnar og sturta ógrynni af jarðvegi í sjóinn til að búa til land, þar sem gólfplötur þurfa að verða í meira en fimm metra hæð yfir stórstraumsflóði.

Kosta mun ógrynni fjár að ganga frá landhæð og varnargörðum, svo að næsta Básendaflóð fleygi ekki öllu með manni og mús á haf út. Engar tilraunir eru gerðar í tillögunni til að meta, hvað kostar að tryggja öryggi eyjabyggða, ekki frekar en að meta kostnað við samgöngur til þeirra.

Hugmyndin um Reykjavík úti í sjó umhverfis eyjar og sker er hrein firra, sem slær út vitleysur Reykjavíkurlistans í skipulagsmálum. Hún mun drekkja mörgum Reykvíkingum.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 16.12.2007 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband