Venjulegur miðvikudagur

gorillaÞað er venjulegur miðvikudagur hér á Selfossi.  Rignir ótæpilega en ég sit inni við tölvuna, var að klára stórt verkefni og hef nóg að gera.  Hafði það af að fara í klippingu og láta klippa á mér lubbann.  Það verður víst seint hægt að segja að ég þjáist af hárskorti, þetta er alltaf sama gamla sagan sumir eru þunnhærðir en svo eru aðrir með hnausþykkan lubba eins og ég.

Gráu hárunum fjölgar smám saman og ég er hætt að reyna að lita yfir þau.  Hjá górilluöpum eru grá hár merki um þroska og þeir apar sem hafa flest grá hár standa efstir í virðingarstiganum.  Stundum verður mér hugsað til þess hvernig væri ef vestræn samfélög hugsuðu eins og það væri raunverulega borin virðing fyrir gráhærða og gamla fólkinu.  Mikið vildi ég óska þess að stjórnvöld og borgaryfirvöld og öll yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast myndu nú drífa í því að byggja svo sem 10 hjúkrunarheimili í viðbót.  Ég er viss um að það dugar ekkert minna miðað við þá biðlista og þörf sem er fyrir hendi.  Og ekki á þörfin fyrir langtímahjúkrun eftir að minnka.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort að það væri ekki hollt fyrir núverandi ráðherra alla saman, að taka strætó.  Sitja við hliðina á uppgefinni ræstingarkonu sem er að koma heim til sín kl. 10 um kvöldið eftir langan vinnudag, og rabba við öryrkja sem hefur ekki efni á því að eiga bíl og kemst varla inn og út úr vagninum.  Ef ríkisstjórnin ætlar að standa við metnaðarfull markmið sín í loftslagsmálum (hver sem þau nú raunverulega eru?), þá ættu ráðherrarnir að ganga á undan með góðu fordæmi og taka strætó.  Þá fyrst myndu þeir komast í tengsl við raunveruleikann. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband