
Síðan kisa kom inn á heimilið hefur ýmislegt breyst. Nú eru lítil augu sem fylgjast með okkur hjónunum næstum því hvert sem við förum, og þegar við ætlum að fara eitthvað út koma lítil brún eyru og segja: "Ætlið þið virkilega að fara og skilja mig eftir?". Kisa eltir mig eins og hundur, ef ég sit og les situr hún við hliðina á mér og hugsar. Alla vegana ímynda ég mér að hún sé að hugsa eitthvað afskaplega spekingslegt vegna þess að hún er svo virðuleg og gáfuleg á svipinn. Þegar jarðskjálftarnir voru, vék kisa ekki frá mér heldur límdi sig við mig, stökk upp í fangið á mér og vildi fá hughreystingu og knús. Reyndar skal tekið fram að kisa okkar er hann, þ.e. stór fress, upprunninn frá Burma, eins konar loðinn síamsköttur með blá augu. Kisa er líka ágætis vekjaraklukka. Þegar honum fer að leiðast þessi langi svefn mannfólksins, rekur hann upp mjálm, og annað mjálm þangað til að ég rumska, segi jæja og drattast í sloppinn og á fætur. Eitt fyrsta verk morgunsins er að gefa kisu smá kjúklingapate og ekki er ástandið gott ef gleymst hefur að kaupa mat fyrir kisu.
Athugasemdir
Kettir eru yndislegar lifandi verur - innandyra! Þegar þeir fara út breytast þeir oft í grimm rándýr sem berjast með kjafti og klóm um nánasta umhverfi sitt. Skiptir þá engu hvort þeir hafi verið geltir eður ei - eðlið að vernda sitt nánasta umhverfi er mjög ríkt og það mættum við mannfólkið taka okkur gjarnan til fyrirmyndar.
Stundum koma þeir blóðugir heim og allir úfnir og tættir eftir bardaga við ketti nágrannanna. Og ef veiðieðli er í þeim eru þeir hræðilegir við að drepa yndislegustu verurnar sem koma fljúgandi í trén okkar að leita lúsa og annarra skordýra, kannski sjá þeir fyrir sér gott hreiðurstæði til að búa sér lítið heimili.
Á heimili Mosa eru 2 kettir. Þeir eru loksins eftir nær áratug farnir að átta sig á því að þeir eigi báðir heima undir sama þakinu ásamt vísitölufjölskyldunni. Þeir hafa ætíð nóg að bíta og brenna enda takmarkið að þeir fari aldrei svangir út fyrir hússins dyr. Stundum er allt að heilu dúsin katta gefið utandyra og þá er oft fjör við kotið. Ætli við séum ekki meðal þeirra vinsælustu í hverfinu meðal kattanna?
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 26.11.2007 kl. 21:31
Æ kisur eru yndisleg og góð dýr. Matti minn er blíðasta og besta kvikindi sem ég hef kynnst. Samt er hann heilmikill veiðiköttur en til allrar lukku er hann hættur að koma með veiðina heim.
Steingerður Steinarsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.