23.10.2007 | 06:54
Um vaxandi lengd mannsævinnar
Læknavísindin taka sífelldum framförum og lífslíkur íbúa jarðar aukast sífellt, einkum í hinum vestræna heimi. Tekist hefur að koma í veg fyrir að fólk deyji úr mörgum hættulegum sýkingum sem áður urðu mörgum að snemmbærum aldurtila. Þróunin er því að verða sú að æ fleiri ná háum aldri, og elli kerling hefur aldrei verið eins lífsseig og drjúg eins og í dag. En þótt að fleiri ár bætist við mannsævina er ekki þar með sagt að lífsgæði fólks aukist endilega til mikilla muna. Það hefur nefnilega færst í vöxt að fólk þjáist af allskyns hrörnunarsjúkdómum, alzheimer og parkinsons auk gigtarsjúkdóma og ýmiss konar slæmsku sem veldur mönnum óþægindum eða jafnvel þjáningum. Það að fólk lifir lengur í dag en nokkru sinni fyrr, þýðir líka að fólk býr lengur við allskyns sjúkdóma, það lifir lengur með alzheimer, það berst lengur við krabbamein og það býr við gigtarsjúkdóma síðustu æviárin.
Þetta þýðir að sá tími sem fólk þarf umönnun annarra og hjúkrun hefur lengst verulega og mun lengjast æ meir á komandi árum. Það er ekki dauðinn sjálfur sem er að hrjá gamla fólkið í dag heldur hin langa elli, hrörnunin og þeir sjúkdómar sem henni fylgja. Stjórnmálamenn og yfirmenn heilbrigðiskerfisins þurfa að gera sér grein fyrir því strax að þörfin fyrir langtímahjúkrun mun einungis fara vaxandi á komandi árum. Biðlistar munu lengjast og álag á aðstandendur mun aukast. Þetta er mál sem snertir ekki bara einstaka fjölskyldur heldur snertir þetta okkur öll vegna þess að öll munum við væntanlega eldast og mörg okkar munu á endanum fá einhvers konar sjúkdóma og ellieinkenni. Mörg getum við vænst þess að ná áttræðisaldri þannig að öldruðum mun fjölga að sama skapi sem umönnunartími vegna ellinnar lengist. Það er kominn tími til að setja gamla fólkið í forgang.
Athugasemdir
Við vorum að ræða það systkinin, -eftir að hafa rekið okkur á veggi þegar við leitumst að hjálpa mömmu að fá þá aðstoð sem hún þar- hvernig þetta verður þegar við komumst á hennar aldur.
Það er hins vegar sagt í Bandaríkjunum að sú kynslóð sem nú er að alast þar upp verði fyrsta kynslóðin í sögu USA sem lifir skemur en foreldrar hennar. svo þetta er bara spuringin um þá sem eru á miðjum aldri núna.
Jón Sigurgeirsson , 24.10.2007 kl. 00:50
Held bara að það sé ekkert svo gott að lifa lengi. Er forlagatrúar og held við förum þegar okkar tími er kominn, hvort það séu slys, veikindi eða elli. Varla erum við svo ómissandi. En við erum svo hrædd við dauðann, jú, auðvitað er sorglegt þegar fólk fellur frá í blóma lífsins og hvað þá börnin. En þegar fólk er orðið satt lífdaga, hversvegna að lengja lífið? Allt fjörið er framundan og svörin
Fishandchips, 24.10.2007 kl. 01:51
Áhugaverð pæling . En ég hef líka nýlega heyrt ( frá sérfræðingi í offitu barna ) að kynslóð sem núna er að alast upp í BNA munu lifa styttri (að meðaltali) , vegna kvilla sem tengjast offitu og gott ef ekki ofþyngd.
Hins vegar ef menn stunda heilbrigða hreyfingu svona um 30 mínútur á dag, þá lifa þeir bæði lengur og verða heilbrigðari. Þetta kom til dæmis fram í rannsókn Lars Bo Andersen og samstarfsmanna í vísindagrein birt í Archives of internal Medicine á árinu 2000. Nánari tiltekið þá virðist vera að þeir sem hjóluðu í og úr vinnu að staðaldri hefðu 30% lægri líkur á að deyja á rannsóknartímabilinu ( 14ár) en þeir sem hjóluðu ekki. Jafnvel þó að leiðrétt sé fyrir því að sumir stunda annarskonar hreyfingu. Og þar fyrir utan voru þeir sem hjóluðu heilbrigðari. Nú er þekkt að hættan af slysum eykst með aldrinum meðal hjólreiðamanna ( sem í bilslysum og meðal gangandi ), en samt bætti það heilsu og ár við líf gamlinga að byrja að hjóla 5 daga vikunnar samkvæmt rannsókninni.
Með því að auka hjólreiðar má létta byrðir af heilbrigðiskerfinu, eins og kemur til dæmis fram há Lýðheilsustöð og í nýlegri breskri skýrslu.
Morten Lange, 28.10.2007 kl. 18:13
Þeir deyja gamlir sem guðirnir elska ekki.
Sigurður Þór Guðjónsson, 30.10.2007 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.