21.10.2007 | 10:24
Að fara í hundana
Ég verð að játa dálítið. Mig hefur alla ævi langað í hund. En foreldrar mínir voru algjörlega á móti gæludýrum og ég sem dýravinur og dýramanneskja hef því átt ansi erfitt uppdráttar. Mér hefur tekist að koma einum naggrís inn á heimili okkar hjónanna og kallast dýrið Goggi. Goggi er rólegur og friðsamur, grænmetisæta, borðar þyngd sína af heyi á dag og elskar tómata og gúrkur einkum frá Laugarási.
Í gær fórum við hjónin í gæludýrabúðina til að kaupa hey handa Gogga. En þá voru þar til sölu undurfagrir 4 silk terrier hvolpar og einn þeirra horfði á mig með þessum augum ....þið vitið... augunum sem segja viltu ekki eiga mig. Ég kolféll fyrir hundinum, en maðurinn minn ekki. Á leiðinni heim í bílnum var ekki talað um annað en hunda, kosti þeirra og galla. Ég taldi upp kostina, maðurinn minn taldi upp gallana. Það merkilega var að í gær komu síðan tveir hundar (með eigendurna í bandi) í heimsókn til okkar. Einn hundurinn pissaði utan í dyrakarminn til þess að merkja sér húsið og ég þaut í Júróprís til þess að kaupa grænsápu. Um kvöldið kom síðan annar hundur sem sýndi naggrísnum Gogga mikinn áhuga en Goggi sem er grænmetisæta var þetta sallarólegur í búrinu sínu og ullaði bara framan í hundinn.
Í nótt dreymdi mig síðan silk terrier hvolpa og nú er ég komin með hundaveikina. Ef þetta heldur svona áfram gæti hvað sem er gerst. En ég er a.m.k. ekki ennþá farin í hundana...ekki alveg.
Athugasemdir
Þetta með hundaleysið er örugglega hundfúlt. En þegar þú færð þér hund þá skaltu fá þér góða ryksugu.
Jón Sigurgeirsson , 21.10.2007 kl. 13:11
öSkil þig vel. Langar ógurlega í hund en hef ekki aðstöðu til þess að hafa neinn núna. Framtíðaráætlun.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.10.2007 kl. 18:26
Haha, systir mín fór í hundana fyrir 3 árum. Sagði það besta ráðið til að tryggja sér næga hreyfingu, nú fer hún í gönguferðir 2x á dag.
Svava S. Steinars, 24.10.2007 kl. 09:55
Silki Terrier fara ekki úr hárum! Þeir eru æðisleg krútt! ...Eeeeeen það þurfa allir heimilismenn að vera sammála um að vilja hundinn annars er stanslaust stríð.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.10.2007 kl. 16:54
Mæli eindregið með því að fólk fari í hundana. Það er engu líkt.
Steingerður Steinarsdóttir, 29.10.2007 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.