29.9.2007 | 09:46
Frábær Chechov
Var á frábærri leiksýningu hjá Leikfélagi Selfoss í gær. Sýndir voru stuttir leikþættir eftir Anton Chechov og kallaðist verkið Hnerrinn. Leikþættirnir voru byggðir á nokkrum af fjölmörgum smásögum Chechovs en hann skrifaði smásögur m.a. til þess að koma sér í gegnum læknanám.
Anton Chechov leit fyrst og fremst á sig sem lækni. Hann var mikill mannvinur og væntumþykja hans á fólki skín einhvern veginn í gegnum allar sögur hans. En þegar Anton Chechov fór til Sakhalin eyju um 1880 sá hann þvílíka eymd að hann hugsaði: Ég get haft meiri áhrif á hugsun fólks sem rithöfundur en læknir. Eftir það taldi hann sig fyrst og fremt rithöfund.
Verk Antons Chechovs eru alvarleg með gamansömu ívafi og léttur húmor stundum svartur, svífur yfir vötnunum. Ég grét af hlátri á leiksýningunni í gær og mér heyrðust einhverjir fleiri gera slíkt hið sama. Það skyldi þó ekki vera að andi Chechovs hafi verið þarna á sveimi?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.