Gengið um sali hins veraldlega valds

nixon_zhouVeraldlegt vald er eitt það vandmeðfarnasta og hættulegasta sem menn geta fengið í hendur.  Víða í trúarbrögðum heimsins er varað við hinu veraldlega valdi og áhrifum þess.  Ótal dæmi eru um menn sem hafa orðið valdasjúkir og geðsjúkir á valdastólum, ofmetnast og talið sjálfa sig almáttuga.  Meðal þessara manna er Mao Tse Tung hvurs ævisaga var að koma út núna fyrir nokkrum dögum að því er mér skilst í frábærri íslenskri þýðingu.  

Vald spillir út frá sér,  og menn virðast geta orðið háðir valdinu sem aftur gerir þá veruleikafirrta.  Til er hin sérstaka valdapólitík eða Machiavellíska pólitík (realpolitik eða power politics) þar sem valdið er ofar öllu og tilgangurinn helgar meðalið eins og hjá Bismarck sem háði þrjár styrjaldir til þess að sameina Þýskaland í eitt ríki.   Öfgastefnur, bæði til hægri og vinstri, hafa aðhyllst valdapólitík og fórnað milljónum manna í einskisnýtu valdabrölti.  Fyrir Vladimir Lenin voru manneskjur bara tölfræði, - númer á blaði og hann hafði enga tilfinningu fyrir því að hann væri að valda dauða raunverulegs fólks. 

Önnur birtingarmynd valdsins er sú að þeir sem hafa völdin á hverjum tíma eru dauðhræddir um að missa þau.  Júrí Andropov, sem var sendiherra Rússa í Ungverjalandi þegar uppreisn átti sér stað þar sá hvernig æstur múgur hengdi lögreglumenn upp í ljósastaura.  Þeirri sjón gleymdi hann aldrei og seinna þegar hann var orðinn yfirmaður KGB og síðan aðalritari rússneska kommúnistaflokksins barði hann niður alla andstöðu af því að hann var hræddur við blinda heift múgsins, - hræddur um að kommúnistaflokkurinn í Rússlandi gæti misst völdin ef hann sleppti járnkrumlunni sem hann og síðar gerði.   

En hvernig á hinn kristni maður að umgangast hið veraldlega vald ? Svarið er:  Með varkárni.  Hinn kristni maður á að greiða sína skatta og skyldur, hann á að hlíta lögum og leitast við að gera það sem rétt er.  En ef hinn kristni maður stendur andspænis algjörlega spilltum veraldlegum valdhöfum þá skal hann minnast þess að hann er undir öðru og æðra valdi.  Ef kristinn maður er t.d. kvaddur í herinn og honum sagt að fara fram á vígvöllinn og drepa menn verður hann að lýsa því yfir að hann geti það ekki af trúarástæðum þar sem hans kristna lífsskoðun bannar honum að valda dauða annarra.  Sama gildir um náttúruna.  Sé hinum kristna manni sagt að eyðileggja náttúru landsins verður hann að minnast þess að með því er hann að ganga gegn kjarna hins kristna samfélags.  Og bregðist hinn kristni maður trúarsannfæringu sinni og heilindum hefur hann um leið brugðist sjálfum sér sem er kannski það versta hlutskipti sem til er.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband