2.8.2007 | 10:13
Varasöm jarðfræði við Þjórsá
Í jarðfræðiskýrslu sem fylgdi með umhverfismati vegna Þjórsárvirkjana árið 2003 koma fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Í fyrsta lagi hafa stíflumannvirki og uppistöðulón aldrei verið byggð áður við svipaðar aðstæður. Í skýrslunni er bent á að skoða þurfi eftirfarandi:
1. Um er að ræða upptakasvæði stórra jarðskjálfta. Jarðskjálftar af stærðargráðunni 6-7 á Richter verða nokkrum sinnum á öld. Suðurlandsskjálftinn árið 2000 losaði í þessu sambandi einungis 25% af spennunni sem er í jarðskorpunni á þessu svæði.
2. Mikill fjöldi virkra jarðskjálftasprungna liggur um svæðið. Þessar sprungur geta verið upprunasprungur jarðskjálfta eða þær geta opnast og hreyfst til í skjálftum. Sprungurnar mega alls ekki lenda undir mikilvægum mannvirkjum.
3. Sprungurnar eru lekar jafnvel þótt þær hreyfist ekki. Reikna verður með því að uppistöðulón sem eru byggð ofan á lekum sprungum geti lekið.
4. Þéttleiki virkna sprungna er mikill. Reikna má með að áætluð jarðgöng á svæðinu sem snúa í Austur - Vestur skeri einhverjar sprungur.
Í ljósi ofangreindra atriða hlýtur að vakna sú spurning hvort að jarðfræði Þjórsársvæðisins hafi verið nógu vel rannsökuð, hvort að hægt sé að byggja uppistöðulón á sprungum sem gætu lekið eða hvort að náttúra svæðisins sé þess eðlis að hún henti ekki fyrir virkjanir yfirleitt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.