Nokkur orð um trú og vísindi

Nú má eðli málsins samkvæmt spyrja sig þeirrar spurningar hvort hægt sé að vera raunvísindamaður en vera samt kristinnar trúar ?  Er heimsmynd raunvísindanna þess eðlis að hún útiloki tilvist Guðs?  Bæði Albert Einstein og Stephen Hawking hafa í raun sagt að ekkert í heimsmynd raunvísindanna útiloki tilvist Guðs ef út í það er farið.  En málið er flókið og ekki eins einfalt og sýnist við fyrstu sýn.  Kannski erum við komin út í umræður um takmörk hinnar vísindalegu aðferðar,  hin mismunandi birtingarform sannleikans í vísindum, listum og trúarbrögðum og spurninguna hvort að til geti verið fleiri en einn sannleikur án þess að útiloka annan sannleika.  Mér hefur oft fundist ótrúlega mikill sannleikur fólginn í bókmenntaverkum jafnvel þótt mér sé tjáð að þau séu helber skáldskapur.  Er einhver sannleikur t.d. í verkum Dostojevskijs ?  Oft finnast mér bókmenntir lýsa veruleikanum betur heldur en jafnvel veruleikinn sjálfur getur lýst sjálfum sér.  En hvað þá með Biblíuna.  Í fyrsta lagi ættu menn að bera hæfilega virðingu fyrir Biblíunni einfaldega af þeirri ástæðu að elstu sagnir Biblíunnar eru kannski allt að 10.000 ára gamlar eða eldri.  Biblían á rætur í elstu menningarsamfélögum heimsins, fyrstu akuryrkjusamfélögunum sem urðu til þegar mannkynið hóf að stunda landbúnað.  Þess vegna hef ég aldrei skilið þá menn sem dæma Biblíuna eins og hún væri nútíma vísindatímarit t.d. Geophysical Science and letters.  Biblían er ekki vísindatímarit, hún á ekki að vera vísindatímarit en þar með er ekki sagt að í henni sé ekki heilmikill sannleikur.  Sannleikurinn er til í mörgum birtingarmyndum og í trúarbrögðum er fólgin mikil viska.  Viska er ekki það sama og þekking.  Vísindin búa til þekkingu en þau búa ekki endilega til visku.  Það var t.d. ekki mjög viturlegt að finna upp kjarnorkusprengjuna.  Sá sem vill feta hina grýttu slóð viskunnar verður að fara leið sem liggur að hluta til í gegnum heim trúarbragðanna.  Hver sá sem hunskar visku trúarbragðanna og þann sannleika sem þar er að finna, á á hættu að falla í gryfju heimskunnar og eins og stendur í Biblíunni:  Varist fræðimennina sem vilja láta heilsa sér á torgum og vísa sér til hefðarsætis í veislum.  Hégómi - allt er það hégómi.  Sumt verður einfaldlega ekki skilið nema með hjartanu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband