2.7.2007 | 21:30
Hvað er ég að gera?
Fólki finnst svolítið erfitt að skilja hvað ég er að gera. Ég er heima allan daginn, fer kannski út um tvö leytið og fæ mér kaffi og síðan sést ég hoppa inn og út úr húsinu mínu en hvað er ég að gera ??? Jú ég er fyrst og fremst að þýða. Ég sit við tölvuna allan daginn og þýði allskyns pappíra. Fæ verkefnin send frá Reykjavík og sendi þau þangað aftur til baka. Dagurinn í dag var t.d. alveg brjálaður af því að ég var komin í smá tímahrak og þurfti að flýta mér að klára. Og það verður líka alveg nóg að gera á morgun. Ég er nefnilega líka að basla við að þýða bók.
Þar fyrir utan sit ég í stjórn Landverndar og tek þar þátt í margvíslegu starfi, Bláfánanum, Vistvernd í verki, og ég vinn að umhverfisbaráttu svona yfirleitt. En mest af því starfi fer fram rólega og yfirvegað, - ég gagnrýni gjarnan matsskýrslur eða kem því til leiðar að bréf eru skrifuð og þau rata einhvern veginn sína leið. Ég trúi því að penninn sé máttugri en sverðið. Ég tek ekki oft þátt í mótmælum, en nota hins vegar þær leiðir sem mögulegar eru til að koma málefnum umhverfisverndar á framfæri á friðsamlegan hátt.
Ég hef þannig alls ekki mikinn tíma til að blogga, og ég er EKKI stjórnmálamaður heldur umhverfissinni og ég er líka menntuð í environmental science eða umhverfisvísindum frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg. Ég horfi oft á íslenskt samfélag utanfrá, ég er gagnrýnin og kaupi ekki hvaða bull sem er. En semsagt þetta er ég nú að gera.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.