25.6.2007 | 21:05
Að kolefnisjafna álver!
Núna eru uppi hugmyndir um að kolefnisjafna útblástur gróðurhúsalofttegunda frá fyrirhuguðu álveri við Húsavík. Þeirri hugmynd fagna ég ekki. Ástæðan er sú að hvert nýtt álver er HREIN VIÐBÓT VIÐ LOSUN GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDA Í HEIMINUM. Álverið á Húsavík kemur þannig til með að losa hundruðir þúsunda tonna af gróðurhúsalofttegundum á ári út í andrúmsloftið sem ella hefðu aldrei borist þangað. MEÐ ENDURVINNSLU Á ÁLDÓSUM ER HÆGT AÐ KOMA Í VEG FYRIR ALLA ÞESSA LOSUN MEÐ ÞVÍ AÐ SLEPPA ÞVÍ EINFALDLEGA AÐ BYGGJA FLEIRI ÁLVER.
Í öðru lagi á að planta tugum milljóna trjáa í Þingeyjarsýslum. Eru menn orðnir gjörsamlega galnir ? Skógrækt á fullan rétt á sér á sumum svæðum, en ef planta á þessum trjáafjölda á ÍSLANDI þá ER ÞAÐ MEIRIHÁTTAR BREYTING Á UMHVERFI OG NÁTTÚRUFARI. MÓFUGLAR MUNU HVERFA AF STÓRUM SVÆÐUM OG GRASLENDI TAKA MIKLUM BREYTINGUM OG VATNAFAR EINNIG.
Í þriðja lagi er EKKI SANNAÐ hversu mikið af kolefni tré varðveita til framtíðar. Tré eyðast og þegar þau deyja þá losa þau aftur kolefni út í andrúmsloftið. ÞAÐ ÞARF ÞVÍ AÐ PLANTA ÞESSUM SKÓGI MÖRGUM SINNUM EF FRAMTÍÐARÁRANGUR Á AÐ VERA TRYGGÐUR.
NIÐURSTAÐAN ER SÚ AÐ ÞAÐ ER EINFALDLEGA EKKI ÞÖRF FYRIR ÖLL ÞESSI NÝJU ÁLVER NEMA TIL ÞESS AÐ LEYFA BANDARÍKJAMÖNNUM AÐ HENDA ÁLDÓSUM Í RUSLIÐ Í STAÐ ÞESS AÐ ENDURVINNA ÞÆR. VONANDI Á EFTIRSPURN EFTIR ÁLI Í HEIMINUM EFTIR AÐ MINNKA EN EKKI AUKAST. MINNI ÁLFRAMLEIÐSLA Í HEIMINUM MYNDI KOMA Í VEG FYRIR GÍFURLEGA EYÐILEGGINGU UMHVERFIS OG LOFTSLAGS. DRÖGUM ÚR NOTKUN ÁLS.
Athugasemdir
Að sleppa því að byggja álver á Íslandi mun ekki breyta framboði/eftirspurn í heiminum. Það verða bara fleiri byggð erlendis ef við fækkum þeim, í flestum löndum er svo mengað meira við það að byggja álver en hérna.
Svo er ennþá umdeilt hvort Co2 sé hættulegt umhverfinu eða ekki, margar augljósari hættur sem við ættum frekar að einbeita okkur að.
Geiri (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 21:20
Þau álver sem byggð eru hér á landi hafa ekkert með það að gera hvort það verði byggð færri álver annarstaðar. Álverin hér á landi eru hrein viðbót við álframleiðslu heimsins og koma ekkert til með að draga úr mengun annarstaðar. Ekki hefur einu einasta álveri verið lokað fyrir álverið á Reyðarfirði, og meðan svo er draga álver á Íslandi ekkert úr mengunarlosun heimsins.
Brynjar Hólm Bjarnason, 26.6.2007 kl. 00:05
Til þess að kolefnisjafna álverið fyrir austan með skógrækt þyrfti að planta í 1000 ferkílómetra lands. Það er soldið mikið. Í úttekt Viðskiptablaðsins 1.júní á skógrækt í landinu kemur fram að miklu áhrifaríkara en skógrækt til að binda koltvísýring væri að moka aftur ofan skurði. Á Íslandi verpa 50 % heimsstofns heiðlóu og 40 % spóa í sjaldgæfu búsvæði á alþjóðlegan mælikvarða. Útbreiddasta gróðursamfélagið á norðurhveli er skógur. Auðvitað hefur skógrækt áhrif á landslag. En mest hefur verið plantað af trjám eftir 1990 og þá í bændaskógrækt. Meðalhæð ræktaðs skógs er ennþá aðeins 1,3 metrar. Skógrækt hefur aldrei farið í umhverfismat og minntist forstjóri Náttúrufræðistofnunar á það í viðtali á útvarpisögu að það væri e-ð um það að plantað væri í 199 hektara svæði til að sleppa við 200 hektara mark umhverfismats og planta svo í aðra 199 skammt frá.
Pétur Þorleifsson , 26.6.2007 kl. 09:34
Pétur Þorleifsson:
Þessi svokallaða „úttekt Viðskiptablaðsins“ (þ.e. Ólafs Teits Guðnasonar) frá 1. júní átti fátt skylt með vandaðri blaðamennsku, en var þeim mun meira í ætt við þá óvönduðu smjörklíputaktík sem einkennir skrif blaðamannsins og félaga hans, frjálshyggjuanarkistanna á Vefþjóðviljanum. Leiðarljós hans og félaga hans á andriki.is virðist vera: ‘Vegna þess að skattpeningar hafa runnið í „ríkisstyrkta skógrækt“ hlýtur slík skógrækt að vera af hinu vonda’. Með sömu rökum mætti halda því fram að menntun barna eða heilbrigðisþjónusta hljóti að vera verkfæri djöfulsins, úr því að fjármunir til slíkra óþurftarverka koma úr vasa skattgreiðenda.
Með þráhyggjuáráttu sinni hefur forstjóri Náttúrufræðistofnunar (því miður) fyrir löngu síðan náð að stimpla sig út úr allri málefnalegri umfjöllun um skógræktar- pg umhverfismál. Tröllasöguþvaðrið um áhrif skógræktar á varplendi lóu og spóa eru úr lausu lofti gripnar, því hérlendis eru stofnar þessara tegunda sterkir og mólendi (kjörlendi þessara fuglategunda) fjarri því að vera í útrýmingarhættu. Hagsmunabarátta forstjórans fyrir því að Náttúrufræðistofnun Íslands fái greiddar fúlgur fjár fyrir að framkvæma umhverfismat á hverri einustu bújörð í undanfara hverrar trjáplöntunar hringja varúðarbjöllum (Sbr.: Follow the money trail!). Gjalda skal varhug við því að trúa orðum lýðskrumara, þótt þeir klæði sig í búning forstjóra vísindastofnunar.Vésteinn Tryggvason (IP-tala skráð) 27.6.2007 kl. 20:56
Mólendi fjarri því að vera í útrýmingarhættu? Það á samt að láta það í friði og já, kannski umhverfissinnar og sósíalistar eigi stundum samleið með frjálshyggju-anarkistum eins og Vésteinn nefnir Vefþjóðaviljagaurana. Ég segi aftur á móti eins og Kristín Dýrfjörð samstarfskona mín að ég pirra mig ekki yfir sköttum en stundum hvernig þeim er varið. Skógrækt með varúð, skógrækt fari í umhverfismat. Og hvaðan kemur þessi fyrirlitning á Jóni Gunnari Ottóssyni? Það ætti einmitt að meta umhverfisáhrif á hverri bújörð - ákveða landnýtingu. Í þeim skilningi tek ég hvorki undir anarkisma né frjálshyggju. Við þurfum að standa við skuldbindingar um að vernda líffræðilega fjölbreytni. Hluti þess verkefnis er að endurheimta birkiskóga og annað viðarlendi. Þar sem mólendið er friðað vex viðurinn upp. En líka endurheimta votlendi og standa vörð um búsvæði fugla.
Varðandi skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, þá skilst mér að það séu afar góð fræðileg rök fyrir því að endurheimt votlendis skili mestum árangri varðandi kolefnið. Skógrækt er hins vegar viðurkennd aðferð alþjóðlega og unnið er að því að landgræðsla fái slíka viðurkenningu. Hafi ég tekið rétt eftir.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 28.6.2007 kl. 20:58
Skilgreining á umhverfismati:
Dulið atvinnuleysi meðal náttúrufræðinga.
Ég sé ekki að lífríki eða þegnar þessa lands njóti nokkurs ávinnings af kostnaðarsömum'umhverfismatsferðalögum' sérfræðinga Jóns Gunnars Ottóssonar. Það hefur reynslan af Kárahnjúkasvæðinu a.m.k. sýnt fram til þessa.
Velkist menn hins vegar í vafa um hvort skógrækt til 'kolefnisjöfnunar' í Þingeyjarsýslum standist kröfur um sjálfbærni og skilvirkni, ættu menn að leita í smiðju alþjóðlega viðurkenndra umhverfisvottunarstofa á sviði sjálfbærrar skógræktar, fremur en að leita hófanna hjá fúskurum við Hlemmtorg, um hliðstæða en óvandaðri þjónustu (s.k. "umhverfismat").
Varðandi endurheimt votlendis til kolefnisbindingar. Þetta mun víst ekki vera alþjóðlega viðurkennd aðferð til kolefnisbindindingar og rannsóknir munu enn vera í nokkru skötulíki.
Gapripill (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 23:37
Í tilkynningu frá umhverfissamtökunum Húsgull kemur fram „að vegna sérkennilegra viðbragða forstjóra Skipulags ríkisins og forstjóra Náttúrufræðistofnunar við metnaðarfullum og ábyrgum áformum um að endurheimta landgæði og stöðva jarðvegseyðingu í sveitarfélaginu Norðurþingi, er rétt að upplýsa eftirfarandi:
1. Ríkisforstjórunum er greinilega ekki kunnugt um orsök og afleiðingar jarðvegseyðingar. Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur þó nýlega sent frá sér skýrslu sem sýnir fram á, að hnignun og hrun vistkerfa í kjölfar stækkandi eyðimarka er eitt mesta umhverfis og félagslegt vandamál jarðarbúa. Stækkun og nýmyndun eyðimarka er bein afleiðing rányrkju og hnignun skóga.
2. Um 96% skóglendis og um 50% gróðurs hefur eyðst á Íslandi frá landnámi. Þannig hafa losnað 1600 milljón tonn af CO2 við jarðvegs – og gróðureyðingu síðustu 1000 ár eða 1,6 milljón tonn á ári. Álver sem framleiðir 200 þúsund tonn af áli á ári losar 0,3 milljón tonn af CO2 á ári.
3. Það er hægt að jafna út losun CO2 með uppgræðslu og skógrækt. Mestur ávinningur fæst þegar eyðimörk er breytt í skóglendi. Skógrækt hefur einnig margvíslegan annan ávinning í för með sér.
4. Ísland er versta dæmi í nútíma um tap jarðvegs og gróðureyðingu. Hnignun í fjölbreytileika tegunda vegna jarðvegseyðingar og stækkun eyðimarka er hvergi skráð hjá stofnunum, eyðimerkurmyndunin hefur ekki verið sett í umhverfismat og hlítir engu skipulagi. Náttúrufræðistofnun og Skipulagsstofnun virðast aftur á móti leggja áherslu á verndun og varðveislu eyðimarka og hálf hruninna vistkerfa og reyna að stöðva uppgræðslu og endurheimt landgæða á forsendum einhvers skipulags
5. Það er tímaskekkja að vernda eyðimerkur og umhverfissamtök og áhugafólk í Norðurþingi mun ekki sætta sig við að komið sé í veg fyrir endurheimt fyrri landgæða í sveitarfélaginu með forsjárhyggju ríkisstofnana.
6. Landgræðslan og Skógrækt ríkisins búa yfir kunnáttu, reynslu, þekkingu, mannafla og vilja til að gera það mögulegt að kolefnisjafna mengun innan sveitarfélagsins þrátt fyrir tilkomu stóriðju á Norðurlandi. Því miður er enginn skortur á eyðimörkum í Norðurþingi en þar eru margar hendur tilbúnar til verksins.
7. Umhverfissamtökin HÚSGULL hvetja alla til að kynna sér málin með opnum hug, án fordóma og sérfræðingahyggju. Jafnframt eru allir velkomnir á uppgræðslusvæði HÚSGULLS á Hólasandi. Uppgræðsla Hólasands er til vitnis um hvað hægt er að gera í uppgræðslu. Þar er 130 ferkílómetra eyðimörk að breytast í gróðurlendi og þar vex nú birki eins og fyrrum."
Vésteinn Tryggvason (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 15:15
Hvað á Húsgull við með "sérfræðingahyggju"? Eitthvað annað en kunnáttu, reynslu, þekkingu og mannafla tveggja annarra ríkisstofnana sem það nefnir og hælir? Er með þessi gert lítið úr sérfræðikunnáttu Landgræðslunnar? Eru til góðir og vondir sérfræðingar eftir því hvað hentar skoðunum manns?
Hólasandur var ekki gott dæmi um eyðimerkurmyndun og uppblástur í nútíma, en víða í kring eru önnur svæði í mikilli hættu. Engin ástæða er til að gróðursetja skóg í mólendi en verst af öllu er að þurrka upp mýrar til þess arna. Okkur ber skylda til að vernda líffræðilega fjölbreytni og mér sýnist Húsgull lenda í mótsögn við sjálft sig í einni og sömu málsgreininni með því að bera saman "hálfhrunin vistkerfi" og "uppgræðslu og endurheimt landgæða". Baráttan við uppblástur og eyðimerkurmyndun er einmitt baráttan fyrir því að viðhalda vistkerfum, og ég veit ekki um nokkurn sem er andvígur þeirri baráttu. Ágreiningur er aftur á móti um ofuráherslu á ræktun svæða í lítilli hættu (ef nokkurri) þar sem notaðar eru aðkomujurtir á borð við lúpínu og þar með er ekki verið að endurheimta landgæði heldur skapa ný vistkerfi sem aldrei voru hér.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.6.2007 kl. 17:05
„Sérfræðingahyggja“? Þegar ég sá orðið fyrst í fréttinni datt mér í hug að þetta væri skrauthverfa sem fæli í sér samruna hugtakanna „menntahroki“, „póstmódernísk umhverfishyggja“ og „firring“. En ekki þori ég að fullyrða hvaða merkingu Húsgullsmenn leggja í þetta nýyrði sitt.
Ég á reyndar alveg jafn bágt með að lesa í hvert Ingólfur er að fara með nýjum, heimatilbúnum og áður óþekktum skilgreiningum sínum á hugtökum á borð við „eyðimerkurmyndun“, „uppblástur“, „viðhald vistkerfa“, „endurheimt landgæða“ og svo, að lokum, „svæðum í lítilli hætti“.
„Eyðimerkurmyndun“ merkir t.a.m. ekki bara uppblástur úr rofgeirum eða rofabörðum, heldur almenna hnignun á framleiðslugetu vistkerfa og jarðvegs af mannavöldum, en slík hnignun á sér enn stað á stórum hlutum af yfirborði Íslands. Tvær meginástæður eyðimerkurmyndunar, hérlendis sem á alþjóðavettvangi, er annars vegar eyðing skóga og hins vegar ofbeit, og hafa þessir tveir þættir í sameiningu og í samspili við fokgjarnan eldfjallajarðveg hrundið af stað þeirri víðtæku jarðvegseyðingu sem blasir nú við augum á Hólasandi og mun víðar um landið, ekki síst í Norðurþingi.
Gagnstætt því sem IÁJ heldur fram, er Hólasandur afar gott dæmi um eyðimerkurmyndun og uppblástur. Eyðimerkurmyndun (Desertification) felur nefnilega einnig í sér rof og uppblástur á örfoka landi (þar sem gróðurhulan er að fullu horfin), svo sem raunin var á Hólasandi við upphaf aðgerða þeirra Húsgullsmanna, seint á síðustu öld. En eins og reynsla síðasta áratugar á Hólasandi sýnir, er hægt að byggja upp jarðveg, skóg og líffræðilegan fjölbreytileika á slíku landi á nýjan leik og endurskapa þar með framleiðið og tegundafjölbreytt vistkerfi. Og þá er hægt binda kolefni í leiðinni!Vésteinn Tryggvason (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 19:44
Þegar Húsgull og Landgræðslan hófust handa á Hólasandi fyrir nokkrum árum var lítill uppblástur þar og önnur svæði í Þingeyjarsýslum í miklu meiri hættu. Hólasandur er hins vegar afmarkað svæði sem er auðvelt að sýna, almannatengsladæmi. Mólendi er þó ekki spillt - nema ef lúpínan breiðist þar út í mólendið sem ég hef ekki kynnt mér enn þá hvort hefur gerst en ástæða er til að hafa áhyggjur af. Einhver skilyrði munu þó hafa verið sett, lútandi að þessu, þegar framkvæmdir voru heimilaðar.
Veit ekki hvort þú, Vésteinn, ert að gera mér upp heiður að tala um "nýjar, heimatilbúnar og áður óþekktar skilgreiningar" - þetta er spjall hér á bloggsíðu Ingibjargar Elsu en ekki vísindagrein. Eða er þetta nokkuð af sömu sort og þú ýjar að því að forstjóri Náttúrufræðistofnunar sé "lýðskrumari"? Við erum mörg sem höfum haldgóða þekkingu á margvíslegum náttúrufræðum án þess að vera líf- eða jarðvísindamenn - en það eru samt náttúruvísindi, skólalærð og sjálflærð, sem hjálpa okkur á því sviði, og margt að læra, eins og t.d. af jarðvegsrofsrannsóknum Ólafs Arnalds og félaga sem eru mjög sjokkerandi. Það er reyndar rangt hjá mér að tala um að Hólasandur hafi ekki blásið upp "í nútíma" ef notaðar eru kórréttar skilgreiningar - nýlega væri betra til að forðast skilgreiningamisskilning. (Var að freista þess að forvitnast um þig, Vésteinn, en varð lítið ágengt í ja.is en á einum stað í blogginu vísar þú eða alnafni þinn í áhugaverða grein þar sem varað er við því að þétting byggðar í borgum sé töfralausn.)
Að lokum leyfi ég mér að vísa hér á rannsókn mína á orðræðunni um loftslagsbreytingar og tengsl hennar við þjóðernisstefnu, sektarkennd og aukna nýtingu á rannsóknarþekkingu, bæði hjá Landgræðslunni og Skógræktinni. Á þeirri síðu eru tilvísanir í tvær greinar, báðar birtar í ritrýndum tímaritum. En höldum okkur samt við kurteislegan spjallstíl hér. Það eru engin einföld sannindi um jarðvegsrofið á Íslandi en úrkomuleysið undanfarið er þó áhyggjuefni.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.6.2007 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.