Í Öxney á Breiðafirði er eitt elsta hús á Íslandi samkvæmt skrám Þjóðminjasafns, gömul kapella sem er byggð á enn eldri grunni sennilega tengdum keltneskri kristni. Í Bjarnarhöfn við Breiðafjörð bjó landnámsmaðurinn Björn austræni sem lét grafa sig í flæðarmálinu sem bendir til keltneskrar kristni. Ef við gerum ráð fyrir að bænarstaður Björns austræna hafi verið þar sem kirkjan í Bjarnarhöfn stendur núna, þá liggur bein lína frá Bjarnarhafnarkirkju í gegnum hið heilaga Fjall Helgafell og yfir í Krosshólaborgina, sem var bænastaður Auðar Djúpúðgu, sem var systir Björns austræna og keltnesk kristin eins og hann. Hafi hún tendrað eld uppi á Helgafelli hefur bálið sést frá Bjarnarhöfn og öfugt.
Skammt frá Bjarnarhöfn er Purkey sem er Pork island eða Svínaeyjan. Þar hafa verið geymd svín á landnámsöld. Írafell og Pekronsdalur eru skammt undan, en Pekron er gömul írsk mælieining fyrir korn sem bendir til kornræktar þegar loftslag var hlýrra á landnámsöld. Heitið Öxney vísar einnig sennilega til Ax sem vísar til kornræktar, eða til uxa.
Bæjarnafnið Saurar vísar ekki til mýrlendis í norsku, heldur til hins gelíska nafns saor eða saoir sem notað var um smið og þýðir staður þar sem smiður býr eða þar sem er smiðja til staðar.
Bjarnarhöfn er í raun upphafshvoll, staður sem er helgaður hinni nýju sól sem birtist á nýju ári, vegna þess að á Nýársdag birtist sólin yfir Kerlingarskarðsfjallgarðinum og skín yfir Bjarnarhöfn eftir um tveggja vikna svartamyrkur vetrar. Einar Pálsson hefði því kallað Bjarnarhöfn upphafshvol eins og hann gerir við Bergþórshvol á Suðurlandi. Þetta er staður ljóssins, endurfæðingar, jólanna því Freyr og Kristur renna saman í eitt og uppskeran er tryggð með komu sólarinnar á nýju ári. Enda er kirkjan í Bjarnarhöfn helguð Heilögum Nikulási í dag, sem er jú jólasveinninn sjálfur og táknmynd fæðingar Krists.
Kristur er einnig Auga Ra. Hann er Sólin og ljósið sem kemur inn í myrkrið. Hann er auga Ra sem sér allt sem er sýnilegt í sólarjósi, mælir og skilgreinir, hin mennska greind - tákn raunvísindanna.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, M.A.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.