Að verða eitthvað þegar maður er orðinn stór

278990320_10225102260977383_901190724571931854_nÉg mun aldrei verða neitt þegar ég er orðin stór. Ástæðan er sú að þegar ég var 19 ára fékk ég alvarlegan geðsjúkdóm sem hefur fylgt mér alla ævi. Og þó ég geti lært og hafi lokið nokkrum háskólaprófum, þá get ég ekki unnið og ekki unnið úr öllu því sem ég hef lært. Þetta er sorglegt en svona er bara staðan. 

Sjúkdómurinn er ekkert að batna og ég var inni á Landsspítalanum bara núna fyrir nokkrum vikum. Starfsfólkið þar var yndislegt. Sú dvöl gerði það að verkum að ég er ekki lengur hrædd við geðdeildir. Þær eru góðir staðir og þar er fullt af góðu fólki sem skilur hvað maður er að takast á við.

Skilningurinn úti í samfélaginu er hins vegar minni. Fordómar gegn geðsjúkdómum eru ennþá algengir sem verður til þess að ég loka mig mikið af innandyra og fer ekki mikið út fyrir dyr. Það eru þó alltaf einhverjir sem koma í heimsókn og detta inn í kaffi.

Ég fæ liðveislu frá Sveitarfélaginu einu sinni í viku. Þá kemur manneskja sem fer með mér í göngutúr og við drekkum saman kaffi. Hún fær borgað fyrir að vera vinkona mín, en ég þarf virkilega á því að halda.

Ég lærði almenna jarðfræði en get ekki kennt. Ég lærði umhverfisefnafræði en get ekki unnið. Ég sjálf myndi vilja vinna ef ég gæti, en sjúkdómurinn kemur í veg fyrir það. Ég er með ótilgreindan geðrofssjúkdóm, sem þýðir að ég get farið í geðrof og upplifað fullt af hlutum sem ekki eru raunveruleiki. 

Ég er samt algjör reglumanneskja. Drekk ekki. Reyki ekki. Þetta kemur bara úr genunum. Ég gerði ekkert til að framkalla þetta. Þessi staða er ekki mér að kenna.

Það er sárt að geta ekki lagt meira af mörkum til samfélagsins. Ég var reyndar sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í 17 ár en treysti mér ekki lengur til þess. Ég má ekki vera undir neinu álagi.

En svona gerist. Mér líður allavegana vel í dag.

Góðar stundir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband