26.3.2023 | 08:38
Samsetningin Einhverfa/ADHD og af hverju hún er skárri en margt annað
Ég er með heila sem er einhverfur / ADHD. Þessi samsetning einhverfa / ADHD er að mörgu leyti skárri en ADHD, þar sem einhverfan gefur mér meiri fókus og skapar meiri hæfileika til einbeitingar. Ég gleymi semsagt aldrei bíllyklinum inni í ísskáp heldur get einbeitt mér t.d. að námi og ýmsum verkefnum. Einhverfan hjá mér er líka skárri heldur en klassísk einhverfa, þar sem ADHD gerir það að verkum að ég er laus við allskyns þráhyggjur sem hrjá marga einhverfa. Ég er einnig mjög mælsk, get talað og orðað hlutina sem er frekar sjaldgæft hjá einhverfum.
Það var ekki uppgötvað að ég væri einhverf fyrr en ég var 44 ára gömul og ADHD uppgötvaðist ekki fyrr en eftir fimmtugt. Ég er semsagt það sem sumir kalla seinhverf. Þetta uppgötvast seint.
Ég hef átt mörg einhverf áhugamál. Einhverfa áhugamálið núna í augnablikinu er tónlist og tónsmíðar.
Það er gaman að vera einhverfur / ADHD einstaklingur og ég vildi ekki skipta. Margir segja alltaf: Erum við ekki öll svolítið einhverf, en það er ekki satt.
Haraldur Erlendsson geðlæknir segir það löngu rannsakað að um 66% fólks séu normal og innan kassans. Þetta er góður meirihluti. Þetta fólk stjórnar heiminum, enda er heimurinn í því ástandi sem hann er.
Um daginn var rætt að fólk væri hætt að eignast börn með Downs-heilkenni á Íslandi. Það fór um mig hrollur. Ég hugsaði hve stutt væri í það að einhverfum fóstrum yrði eytt líka. Í staðinn fyrir að fagna taugafjölbreytileika og mannlegum fjölbreytileika erum við að gera alla eins. Það er sorglegt.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.