Af náð Krists

tequila-sunrise-rose.jpg

Um daginn rann upp fyrir mér ljós. Ég gerði mér grein fyrir því að illska og synd heimsins er í einhverjum skilning okkar sameiginlega illska og okkar sameiginlega synd. Synd er reyndar mjög misskilið hugtak. Synd er í raun lengdareining eins og metri eða ljósár. Hún er mælikvarði á það hversu langt við erum komin frá ljósi almættisins, hversu langt við höfum ferðast burt frá kærleika Guðs. Góðu fréttirnar eru þær, að þótt við séum jafnvel komin út í ystu myrkur, já út á ystu nöf, erum við aldrei aðskilin frá kærleika Guðs, miskunn hans og náð.

Það er ljóst að hið illa verður sálrænt séð ekki aðskilið svo auðveldlega frá manninum sjálfum, þótt hið góða stjórni að mestu og um fyrirmyndarmanneskju geti verið að ræða. Öll höfum við einhverja veikleika, breyskleika og barnalega bresti. Á sama hátt í kristninni verður von Krists, náð hans og frelsun að ná til allra manna og einnig til illskunnar í okkur sjálfum. Þetta gildir einnig þótt við séum yfirleitt til fyrirmyndar og fæstum myndi detta í hug að kalla okkur „ill“. Desmond Tutu gengur meira segja svo langt að segja að Guð sé ekki einu sinnni beinlínis kristinn. Þar er Desmond Tutu að benda á þá staðreynd að framgangur kærleikans í veröldinni er Guði kærari og mikilvægari, en lögmálið og sjálfar svartar bókstafskreddur trúarbragðanna. Þannig elskar Guð alla menn án undantekningar, hvort sem þeir fæðast í Grímsnesinu eða í Súdan.

Það er auðvelt að hljóta fyrirgefningu þegar maður hefur ekki gjört neitt illt. Og það er auðvelt að fyrirgefa öðrum þegar misgjörðir eru smáar og lítilvægar. En hvað með Júdas?

Spurningin um Júdas hefur leitað ansi mikið á mig undanfarið. Hver er Júdas? Júdas var einn af lærisveinunum, sem þýðir að hann er einnig bróðir okkar og systir. Hann er hins vegar sá sem fór út af beinu brautinni. Hann er sá bróðir okkar og systir sem fór að neyta fíkniefna. Hann er sá bróðir okkar og systir sem leiddist út í vitleysu, áfengissýki, glötun, glæpi, vonleysi og ólæknandi geðsýki.

Á þá Júdas enga von? Á þá Júdas enga von þar sem hann liggur í fráhvarfi á Vogi, eða situr þunglyndur og uppdópaður á bráðamóttöku Geðdeildar við Hringbraut? Af hverju er Júdas? Jú Júdas er, vegna þess að í okkur öllum er til eitthvað illt, ekki síður en eitthvað gott. Sum erum við of metnaðargjörn, sum erum við of nísk, sum okkar verða óvart valdasjúk, gráðug eða sum látum stjórnast af ótta, fóbíum og skelfingu. Tollheimtumaðurinn Sakkeus býr innra með okkur öllum og það gerir Júdas líka.

Þeir sem eiga auðvelt með að fá fyrirgefningu manna, þurfa ekki svo mikið á Kristi að halda. En hvað ef maður hefur gert eitthvað af sér sem menn geta hreinlega ekki fyrirgefið? Hvað ef dyr fangaklefans lokast manni að baki, eða ef dyr geðsjúkrahússins lokast og maður er innan girðingarinnar en ekki utan hennar?

Hvaða von geta þeir menn átt, sem enga fyrirgefningu geta fengið hér á Jörð?

Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Það birti til og ljós kærleikans skein um hugarfylgsnin. Þessvegna er Júdas. Það er af því að sumt er þannig að einungis Kristur getur læknað það og fyrirgefið. Einungis Kristur getur fyrirgefið Júdasi.

Einmitt þessvegna þarf Júdas svo innilega á Kristi að halda. Kristur er Júdasar eina von. Kristur gefst ekki upp á neinum og hans fyrirgefning og lækning nær á einhvern hátt sem er ofar mannlegum skilningi til allra manna, einnig til þeirra sem eru eins og Júdas. Og þó við sjáum ekki lækninguna alltaf í þessu lífi, þá finnur Kristur samt leið til að ná til þeirra manna sem mannlegur máttur ræður ekki við.

Mannlegum mætti er það um megn að fyrirgefa og lækna um leið marga þá illsku sem því miður þrífst hér í heimi. Einungis Kristur getur fyrirgefið þeirri illsku sem býr að minna eða meira leyti í okkur öllum og sem birtist í ólíkum birtingarmyndum. Þarna kemur Kristur fram sem sá sem hefur allt vald á Himni og Jörðu. Hann kemur fram sem sá eini sem getur læknað heimsins mein og þau blæðandi sár sem búa innra með manninum sjálfum, ef ekki hér og nú, þá í eilífðinni. Þannig sigrar Kristur hið illa, ekki með sverði heldur með mætti sínum í kærleika.

Faríseiarnir báðu á þann hátt að þeir vildu svo sannarlega ekki vera nálægt glæpamönnum, fíklum, geðsjúklingum eða tollheimtumönnum. Þeir töldu sig hreina og „réttlætta“ af fórnargjöfunum í musterinu í Jerúsalem. Júdas er hins vegar í þeirri viðkvæmu stöðu að hann verður einungis „réttlættur“ fyrir blóð Krists á krossinum á Golgata. Júdas er í þeirri stöðu að þurfa á Kristi að halda. Enginn annar mun faðma hann að sér nema Guð.

Því er það sem miskunsamur skilningur á kristinni trú hlýtur að fela í sér viðurkenningu og innsýn í almennan breyskleika mannsins og okkar sameiginlegu tilhneigingu til að ferðast burt frá Guði og „lenda í synd“. Hún hlýtur að felast í þeim skilningi að við erum þegar upp er staðið öll sama fjölskyldan og að í fjölskyldu Krists er enginn einasti maður utangarðs.

Því ef öll illskan, öfundin, blekkingin og geðsýkin í hjörtum mannanna á sér ekki líka von um lækningu og frelsun Krists? Ef Júdas sjálfur í allri sinni blekkingu og illsku á sér ekki líka von hjá Kristi? Þá mun allt mannkynið einfaldlega ekki eiga sér neina von. Því einungis með því að leita týnda sauðarins, einungis með því að fara inn í hin ystu myrkur alheimsins, nær frelsun Krists til alls sem er og einnig til hins misheppnaða, bitra, beiska og „illa“ sem býr í mismunandi stórum eða smáum mæli innra með okkur öllum, hvort sem við viðurkennum það eður ei.

 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir     28. 01. 2016

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband