Ást og friður í stórviðri

dscn1981.jpgÚti gnauðar stormurinn. Snjóflyksurnar hraða sér eftir snjóugum götunum og grafa bíla og hús niður í skafla. Einmana manneskja birtist á stangli eins og ljósastaur í fjarska og hverfur út í glórulaust myrkrið.

Mikið er gott að vera inni þegar svona stendur á. Gott að eiga sér stað sem er inni. Hjartað fyllist þakklæti fyrir þá 4 veggi sem umlykja mig og ekki er þakklætið minna fyrir rafmagnið og hitaveituna.

Svo er svo notalegt að setjast í appelsínugula hægindastólinn. Bókin hans Tolla Morthens, Ást og friður bara datt ofan í fangið á mér.

Eftir lestur svona 25 blaðsíðna líður mér bara svo vel. Ég er í svo góðum fíling með Tobba hundi og Heiðmörkinni og vatninu að mér líður bara miklu, miklu betur.

Ég féll nefnilega í þá freistni í dag að hugsa um peninga. Maður á aldrei að hugsa um peninga. Peningar koma nefnilega örugglega ekki frá himnum, þeir vaxa ekki á trjánum og voru örugglega uppfundnir í neðra.

Eins og Tolli bendir á, á maður að lifa í núinu og ræða hamingjuna við sinn æðri mátt.

Peningar koma og fara og þegar þeir eru farnir í bili, hafa þeir tilhneigingu til að koma aftur.

Lífið er einfaldlega of stutt til að eyða því í áhyggjur.

Góðar stundir og ekki týnast í hríðinni eins og hann langafi minn sem varð úti árið 1910.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband