
Ég get ekki orða bundist að skrifa aðeins meira um dauðann í nútímasamfélaginu. Margt ungt fólk veit ekki hvað dauðinn raunverulega er og hefur einhverja rómantíska mynd af honum í kollinum eða skakkar hugmyndir úr sjónvarpinu. Í nútímaþjóðfélaginu væri æskilegt að ræða meira um dauðann, veruleika hans og þá staðreynd að það þarf að leyfa fólki að deyja með virðingu. En hvernig gerum við það. Svarið kemur kannski á óvart. Staðreyndin er sú að í nútímasamfélaginu flýja allir burt frá dauðanum. Meira að segja læknar og heilbrigðisstarfsfólk eiga erfitt með að horfast í augu við dauðann og forðast hann í reynd. En það sem skiptir máli fyrir deyjandi manneskju er að borin sé virðing fyrir henni alveg fram til enda, og að einhver sé tilbúinn að vera til staðar og halda í hönd viðkomandi alveg til enda. Það er því nærveran sem skiptir öllu máli. Nærvera einhvers sem er með viðkomandi alla leið. Vegna þess að það er erfitt að deyja og því skiptir nærvera og kærleikur öllu máli. Fyrir þá sem trúa er ennfremur sú huggun að Kristur er með viðkomandi og yfirgefur aldrei sitt barn hvað sem á gengur. Þótt ég gangi um dimman dal þá óttast ég ekkert illt, vegna þess að þú ert hjá mér...
Athugasemdir
Mikill er beygur heilbrigðisstarfsfólks við dauðann. Einu sinni þekkti ég manneskju sem var gömul og veik. Svo varð hún enn veikari og læknir heimilisins talaði við mig og fór kringum hlutina þangað til ég hjálpaði honum og sagði: Er hún bara ekki að fara að deyja? Þá loksins gat hann sagt tabú-orðið. Ég man alltaf eftir þessu. Svo dó manneskjan með mikili tign og fegurð. Ég gleymi því heldur aldrei.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.5.2007 kl. 00:28
Takk Ingibjörg
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.5.2007 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.