Skemmtilegir útvarpsþættir um Dostojevskij

Dostoevsky_1872Í útvarpinu er ungur maður sem heitir Gunnar Þorri Pétursson með aldeilis frábæra þætti þessa dagana um rithöfundinn Fjodor Mikhailovich Dostojevsky.  Gunnar Þorri hefur greinilega kynnt sér bæði bókmenntir og líf skáldsins í þaula og gat ég ekki heyrt annað en að hann færi alveg rétt með.  Skáldsaga Dostojevskys Minnispunktar úr undirdjúpunum sem er til í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur var til umfjöllunar í þættinum í dag.  Þessi skáldsaga er ólík öllum öðrum skáldsögum sem skrifaðar hafa verið.  Hún er svo öflug og kraftmikil að hún bókstaflega breytir lífi fólks.  Ég t.d. ákvað að eyða fimm árum af ævi minni í að læra rússnesku í háskóla eftir að hafa lesið Minnispunkta úr undirdjúpunum og ég veit um einn ágætan bókmenntafræðing sem gerðist bókmenntafræðingur bara út af þessari einu sögu.  En bókmenntir eru hættulegar.  Þær kenna okkur að hugsa sjálfstætt og ekki í klisjum.  Nú er lokið kosningabaráttu sem hefur einkum einkennst af endalausu klisjukenndu kjaftæði.  Það er eins og fjölmiðlar og auglýsingastofur flokkanna haldi að endalaust sé hægt að spila með fólk.  En ég geri hérmeð uppreisn gegn klisjum, hvort sem þær felast í endalausri endurtekningu eða hreinum óskapnaði.  Ég ætla það sem eftir er ævinnar að einbeita mér að fagurfræðinni,  því sem er fagurt, einstakt, og sérstætt, svo sem eins og náttúru Íslands og rússneskum bókmenntum.  Fyrir þá sem ekki þola þennan klisjukennda raunveruleika sem okkur er boðið upp á í fjölmiðlum, er alltaf hægt að slökkva á tækinu og fara inn í veröld bókmenntanna sem er veruleiki út af fyrir sig eða alternative reality eins og skáldið Josif Brodsky segir. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Gaman að lesa að fleiri hlusti á gömlu góðu Gufuna eins og eg. Já þessir þættir um Dostojevsky eru mjög góðir og bregða nýju ljósi á þennan mikla höfund sem hafði gríðarleg áhrif á aðra rithöfunda.

Óskandi er að fleiri þættir verði áfram um fleiri merka höfunda, semm og sitt hvað sem er áhugavert. Útvarpið hefur marga góða kosti sem því miður hefur fallið í skuggann á þessari síbylju. En er vonin um að Ríkisútvarpið verði sá fræðslu- menntabrunnur sjálfmenntunar ef áfram verður haldið á braut einkavæðingar og jafnvel sölu?

Því miður mistókst að fella ríkisstjórnina um helgina. Enginn um borð ruggaði bát ríkisstjórnarinnar fyrir kosningarnar og því urðu engar átakalínur um neitt þannig að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem meirihluti landsmanna kaus ekki..

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 14.5.2007 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband