9.5.2007 | 08:38
St. Pétursborg
Æ fleiri Íslendingar leggja nú leið sína til St. Pétursborgar í Rússlandi. Borg þessi er einstök. Pétur mikli lét byggja hana á fenja og mýrasvæði og létu þúsundir manna lífið við að byggja borgina. Rússar segja að borgin sé byggð á beinum þeirra sem dóu. Það sem einkennir Pétursborg er vatnið. Það er allsstaðar, í gosbrunnum, í ánni Nevu, í hafinu og í flóðunum sem stundum flæða inn í borgina. Það er heillandi að ganga eftir granítgangstéttunum í St. Pétursborg með ána Névu sér við hlið og hugsa um dýpstu rök tilverunnar segir ljóðskáldið Josif Brodsky. Miðborg St. Pétursborgar hefur varðveist að mestu leyti í sinni upprunalegu mynd einfaldlega vegna þess að enginn Rússi þorir að snerta við henni. Fegurð Vetrarhallarinnar er nánast yfirþyrmandi og alls staðar blasa við stórfenglegar byggingar. St. Pétursborg ber andlit þjáningarinnar en hún ber það með reisn. Þetta er borg sem aldrei hefur verið sigruð, heldur stendur stolt eftir átök og styrjaldir, borg sem ber ennþá virðingu fyrir sjálfri sér. En borgin er ekki einungis til í raunveruleikanum - hún er líka til í bókmenntum Rússa og má segja að þar hafi hún fundið sér varanlegan existens. Bókmenntirnar hafa síðan runnið saman við sjálfsvitund borgarinnar og eru hluti af andardrætti hennar og tilveru. Þetta eru stórkostlegustu bókmenntir heimsins. St. Pétursborg er borg sem hefur ekki ennþá orðið fjöldaframleiðslunni og klisjum að bráð. Það eru engar klisjur í St. Pétursborg, aðeins sannleikurinn og hann er meitlaður þar í stein sem veðrast um þúsundir ára.
Athugasemdir
Sæl, Pétursborg er algerlega ómótstæðileg í fegurð. Pétur mikli gerði þá kröfu til þeirra sem vildu byggja hús við Nevski Prospekt, að húsin yrðu hallir að lágmarki.
Gestur Guðjónsson, 9.5.2007 kl. 11:49
Ég fór þangað 1990 þegar borgin hét Leningrad. Byggingarnar voru stórfenglegar en allt mjög skítugt. Mér skilst að nú sé búið að hreinsa borgina og fegurðin fái því að njóta sín. Ég var bara 18 ára túristi frá Íslandi en ég hafði ráð á að borða 7 rétta máltíð á besta veitingastað bæjarins með kampavini og kavíar. En ekki var laust við að maður fengi vont bragð í munninn þegar maður kom út og sá langar biðraðir fólks við allar búðir, sem voru hálftómar. Ég ætla að heimsækja borgina með nýju nafni og nýju lífi og fá þá nýja og góða upplifun
Svava S. Steinars, 9.5.2007 kl. 15:04
Æ, mig langar svo til Rússlands.
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.5.2007 kl. 18:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.