28.4.2007 | 07:48
Hvað hefði Kristur gert ?
Íslenska þjóðkirkjan er kirkja í vanda. Hún veit ekki í hvern fótinn hún á að stíga. Á hún að stíga inn í nútímann eða á hún að halda sig í fortíðinni. Þegar kirkjan er í slíkri kreppu hlýtur hún að líta til fordæmis Krists, hans lífs og kærleika. Við skulum ekki gleyma því að boðskapur Krists var róttækur á sínum tíma og gekk á skjön við valdakerfi rómverska heimsveldisins. Kristur umgekkst samverja og tollheimtumenn, hann upplifði hina mannlegu tilveru til fulls og afneitaði engum hluta mannlegs lífs. Kristur lagði einnig áherslu á kærleikann, bæði kærleika Guðs til allra manna án undantekningar og kærleikann á milli tveggja einstaklinga. Með þetta í huga fæ ég ekki skilið hvernig íslenska þjóðkirkjan getur leyft sér að hafna hjónaböndum samkynhneigðra. Það getur verið að eitthvað sé ofvaxið mínum skilningi en ef um sannan kærleika á milli tveggja einstaklinga er að ræða, sama af hvaða kyni þeir eru, þá hlýtur sá sanni kærleikur að vera Guði þóknanlegur og vera þess umkominn að njóta blessunar. Íslenska kirkjan verður að gæta sín á því að daga ekki uppi í fortíðinni eins og rómverska heimsveldið. Við samkynhneigða get ég aðeins sagt: Kristur sjálfur hefur ekki hafnað ykkur.
Athugasemdir
Heldurðu að Kristur myndi ekki hafna þessu stofnanabákni?
Takk Ingibjörg
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.4.2007 kl. 09:32
Þeir kirkjunnar menn (og aðrir) sem tala harðlegast gegn samkynhneigð skynja engan kærleika fyrir sínum eigin kreddum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.4.2007 kl. 12:47
"Sá yðar sem syndlaus er, kastið fyrsta steininum" Í þessari setningu finnst mér felast sá kærleikur og umburðarlyndi sem ætti að geta vísað kirkjunni leið til skynsamlegrar lausnar í þessu máli
Gestur Guðjónsson, 28.4.2007 kl. 13:31
Vel mælt ! Það væri óskandi að íslenska þjóðkirkjan gæti verið öðrum til fyrirmyndar með því að stíga þetta framfaraskref og sanna þannig fyrir umheiminum að boðskap kristninnar er fylgt innan hennar vébanda. Held það gerist amk aldrei meðan núverandi biskup er við völd.
Svava S. Steinars, 28.4.2007 kl. 13:58
Ég missti það útúr mér á bloggi Jóns Vals að mitt álit væri það að Kristur hefði samþykkt þessa vígslu. Fékk ég þá mikla romsu úr Biblíunni þar sem innihaldið væri m.a. að ekki einn stafkrókur úr Lögmálinu félli úr gildi, sem auðvitað væri hægt að svara með annari romsu úr Biblíunni þar sem Jesús Kristur t.d. braut lögmálið með því að lækna á hvíldardegi. Ég nennti bara ekki í svoleiðis slag og hef alltaf verið á móti því að nota Biblíuna sem vopn. Sá veldur sem á heldur.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 28.4.2007 kl. 17:44
Þessi mál verða alltaf mjög viðkvæm rétt eins og stjórnmálin og kynferðismálin. Við verðum ætíð að nálgast þau af mikilli nærgætni við aðra en stundum finnst okkur auðvitað alltof of skammt gengið. En við verðum aðgera okkur ljóst að trúmálin eru enn að þróast, kristnin, þ.e. hinn nýi sáttmáli Jesú Krists verður brátt að verða 2000 ára gamall. Enn eru uppi ýmsar vangaveltur, á dögunum var fallið frá einni bábiljunni, svonefndu limbói um það að óskírð börn næðu ekki í himnaríki en yrðu að dúsa í forgörðum helvítis. Nú komu viðhorfin sem byggjast á skynsemisstefnunni fyrir um hálfri þriðju öld. Við kynntumst þeim viðhorfum með upplýsingastefnunni, Hannesi Finsen byskup og Magnúsi Stephensen landsyfirréttardómara og konferensráði sem afneitaðu tilveru helvítis. Þau sjónarmið ollu mörgum ádrepum á þann síðarnefnda. Þegar hann t.d. vildi gjörbreyta staðnaðan kirkjusöng á Íslandi með því að taka upp nýja söngbók í kirkjum í stað gamla Grallarans (Graduale) sem var sálmasöngbók síðan á dögum Guðbrandar byskups. Magnús auglýsti eftir nýkveðnum sálmum en tók upp n.k. ritskoðun, strikaði út allt sem tengdist helvíti og kvölum á þeim slóðum. Eina sem Magnús þessi mikli framfaramaður hlaut að launum samtíðar sinnar, var spott og spé og var sálmabókin nefnd Leirgerður sem prentuð var aðhans forlagi í Leirárgörðum.
Verðum við ekki að sýna bæði þolinmæði og jafnaðargeð. Kemst þó hægt fari húsfreyja er haft eftir bónda einum ágætum og þekktum úr einni frægustu Íslendingasögunni. Má taka undir þau orð.
Nú er mál að linni -
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 29.4.2007 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.