23.4.2007 | 07:50
Kjarnorkan er ekki endilega lausnin.
Erlendis ræða menn um að kjarnorkan geti leyst vandamál loftslagsbreytinga. Hún losar ekki gróðurhúsalofttegundir en framleiðir í staðinn kjarnorkuúrgang. En hvað er kjarnorkuúrgangur. Fyrsta stigs kjarnorkuúrgangur getur verið geislavirkur í hundruðir þúsunda upp í milljón ár. Það er því úr vöndu að ráða þegar setja á slíkan úrgang í geymslu. Svíar eru lengst komnir meðal þjóða í þeirri viðleitni að finna framtíðargeymslustað fyrir kjarnorkuúrgang. Þeir hafa borað 500 metra niður í massíft granítið við Äspö og þar undirbúa þeir geymslu á úrgangi. Ég hef reyndar farið ofan í jörðina og skoðað þessar geymslur. Mesta vandamálið við geymslu kjarnorkuúrgangs er tæring. Við viljum ekki að úrgangurinn losni út í umhverfið einhvern tímann í framtíðinni. Þessvegna þarf úrgangurinn að vera í tæringarheldum ílátum, hann þarf að vera öruggur fyrir jarðskjálftum og allskyns jarðhræringum. Út frá þessu má sjá að geymsla kjarnorkuúrgangs er ekki einfalt mál. Og þannig er það með kjarnorkuna. Hún er aldrei einföld þótt afhendingaröryggi rafmagnsins sé gott og orkan ódýr sé kostnaðurinn við förgun úrgangsins ekki tekinn með í reikninginn. Þetta verður vandamál sem kynslóðir framtíðarinnar þurfa að leysa.
Athugasemdir
Sæl IngibjörgMeðfylgjandi er meiri fróðleikur um kjarnorku og brostnar vonir um þann tækniheim.Því miður kann eg ekki að almennilega á tölvutæknina öðru vísi en copy og paste en þú mátt gjarnan nota e-ð af þessum fróðleik sem eg skrifaði um eftir að hafa ráðfært mig um þetta flókna efni við doktor í eðlisfræði.KveðjaMosiMiðvikudaginn 29. nóvember, 2006 - Aðsent efni
Minnismerki brostinna vonaGuðjón Jensson skrifar um atómstöðina í Kalkar í Norður-Rín, VestfalenGuðjón Jensson Guðjón Jensson skrifar um atómstöðina í Kalkar í Norður-Rín, Vestfalen: "Talið er að bygging þessa umdeilda mannvirkis sé verstu og alvarlegustu fjárfestingamistök þýskrar sögu eftir lok síðari heimsstyrjaldar."Í BYRJUN 7. áratugarins hófst bygging mjög stórs kjarnorkuvers í þýska bænum Kalkar, skammt frá Rín þar sem hún rennur til Hollands, af gerðinni "Schneller Brüter" ("hröð útungun" - á ensku: fast breeder). Upphaflegar kostnaðaráætlanir við byggingu þessa vers voru taldar 1,7 milljarðar vestur-þýskra marka.
Með þessu kjarnorkuveri átti að nýta plúton til orkuvinnslu. Áætlað var að framleiða 1.460 MW, þ.e. meira en tvöfalt meiri raforku en við fyrirhugaða virkjun á Austurlandi (690 MW). Nifteindageislun í ofninum átti að nota til að breyta náttúrulegu úrani (að mestum hluta úran-238 sem er ekki nothæft til klofnunar) í plúton sem er aftur á móti klofnunarhæft. Þessi tegund kjarnakljúfa framleiðir því sitt eigið brennsluefni úr náttúruúrani. Um leið er notað plútonið sem myndast í venjulegum kjarnakljúfum og er endurunnið úr notuðu brennsluefni. "Útungunar-"tækni þessi vakti í fyrstu miklar vonir vegna tiltölulega góðrar nýtingar af náttúrulegu úrani en ekki aðeins 0,7% með hefðbundinni tækni. Gallinn við plútonkljúfa er að þeir láta ekki eins auðveldlega að stjórn og venjulegir kjarnakljúfar og ýmis önnur tæknileg vandamál eru bundin við rekstur þeirra. Lítil reynsla er enn fyrir hendi og þekking um möguleg stórslys er af skornum skammti. Mestu réð þó um mótstöðu almennings við Kalkar-verið óttinn við svonefnda plútonvæðingu. Kalkar-verið var skipulagt sem tilraunaver en átti að gera ráð fyrir byggingu fleiri slíkra vera? Það mundi leiða til gífurlegra flutninga á varhugaverðum geislavirkum efnum um Evrópu þvera og endilanga með ómældri hættu sem því fylgdi. Plúton er mjög hættulegt efni sérstaklega í höndum glæpamanna. Má geta þess að ekki þarf nema örlítið magn af því til að búa til kjarnasprengju. Hryðjuverkamenn geta búið til svokallaða "dirty-kjarnasprengju" sem virðist vera ósköp venjuleg en í henni er geislavirkt plúton sem dreifist og eitrar stór svæði. Plúton hefur mjög langan helmingunartíma sem slagar hátt í aldur jarðarinnar.
Árið 1977 tóku um 40.000 manns þátt í mótmælagöngu gegn þessari fyrirhuguðu starfsemi. Gagnrýnendur bentu á að plútonvæðingin gæti haft alvarlegar þjóðfélagslegar afleiðingar sem fælust í því að stjórnvöld hefðu þurft að grípa til áður óþekkts lögregluvalds til að tryggja öryggi við geymslu og flutninga plútons. Óttinn við þessa hættu þrýsti stöðugt á meiri öryggisráðstafanir sem fyrir vikið gerði verið í Kalkar sífellt dýrara og óhagkvæmara. Ekki væri að treysta á að leyfi fengist til að byggja fleiri slík ver. Þess vegna yrði reynslan af Kalkar ekki eins mikils virði og vænta mætti. Reynsla Frakka af verum sömu gerðar, Phènix og Super-Phènix, var heldur ekki til að auka bjartsýni.
Árið 1985 var kjarnorkuverið talið nær tilbúið til notkunar. Eftir stórslysið í kjarnorkuverinu í Tsjernóbíl vorið 1986 óx mjög andstaðan gegn atómstöðinni í Kalkar. Talið var að 55.000 ferkílómetrar lands legðust í auðn ef áþekkt óhapp yrði og í rússnesku stöðinni, meira en helmingur flatarmáls Íslands! Að lokum ákvað stjórn þýsku stjórnmálaflokkanna í Norður-Rín Vestfalen að hverfa frá þessum áformum en þá var byggingarkostnaður kominn í 4 milljarða evra, eða meira en fjórföld upphafleg kostnaðaráætlun! Verktakar töldu nauðsynlegt að útvega meira fé en enginn aðili var tilbúinn að leggja fram síðasta milljarðinn til að ljúka smíði versins.
Þá höfðu Bretar byggt og hafið starfsemi umdeildrar endurvinnslustöðvar í Sellafield í Skotlandi sem vonandi heyrir brátt sögunni til.
Þetta gríðarstóra mannvirki í Kalkar rís hátt yfir umhverfi sitt, endalausa flatneskjuna við Neðri-Rín, minnismerki brostinna vona og seinborinnar skynsemi mjög umdeildra framkvæmda og vafasamra fjárfestinga. Til umræðu kom að rífa atómstöðina þegar ljóst var að hún reyndist tímaskekkja. Áætlanir verktaka að rífa hljóðaði upp á 75 milljónir evra. Talið er að bygging þessa umdeilda mannvirkis sé verstu og alvarlegustu fjárfestingarmistök þýskrar sögu eftir lok síðari heimsstyrjaldar.
Fyrir rúmum áratug var tekin sú ákvörðun að selja þetta umdeilda mannvirki. Frá því segir í Morgunblaðinu 4. febrúar 1996. Hollenski kaupandinn Hennie van der Most fékk það afhent fyrir tæpar 3 milljónir marka. Hann hefur mikla reynslu af að breyta umdeildum byggingum með góðum árangri í skemmti-, gisti- og fundarstaði. Most á sér fjölda aðdáenda víða um heim sem fullyrða að í höndum hans breytist steinar í gull. Hófst hann þegar handa við að breyta kjarnorkuverinu í gríðarstórt gistiheimili með um 1.000 rúmum! Auk þess byggði hann stóran skemmtigarð með sundlaugum og vatnsrennibrautum undir nafninu: Wunderland Kalkar.
Kannski van der Most ætti að líta á Kárahnjúkavirkjun ef illa færi. Hann gæti líklega komið einhverju viti í umdeilda fjárfestingu.
Höfundur er forstöðumaður bókasafns og leiðsögumaður. esja@heimsnet.is.
Guðjón Sigþór Jensson, 23.4.2007 kl. 13:51
ó mí god
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 24.4.2007 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.