21.4.2007 | 23:09
Ég og bækurnar.
Maðurinn minn segir að það sé eins og segulsvið í kringum bókabúðir sem dragi mig inn í þær. Ég er kannski að labba í Austurstræti og VÚÚÚPS ég sogast hjálparvana inn í næstu bókabúð. Á þessum undarlegheitum eru sögulegar skýringar. Báðir afar mínir voru miklir bókasafnarar. Þeir söfnuðu bókum á íslensku, þýsku, ensku og latínu og grísku. Hvor um sig átti stórt bókasafn. Ég var alin upp innan um allar þessar bækur. Á meðan að Sigurður bróðir minn lærði Öldina okkar sat ég og las Hjalta Litla eftir Stefán Jónsson. Þessi bókagen afa minna bárust beint til mín. Ég elska bækur, ég fletti þeim, ég les þær, ég anda þeim að mér og þær veita mér hlýju og öryggi. Bréf til Láru árituð af Þórbergi sjálfum. Þar rauður loginn brann, frumútgáfa eftir Stein Steinarr gefin út á kostnað höfundar af því að hann var bláfátækt skáld og ljóðin fengust hvergi útgefin. Þegar ég flyt til Selfoss verður mesta málið að flytja bókasafnið en mikið verður gaman að raða bókunum upp á nýtt í nýja húsinu. :-)
Athugasemdir
Afabróðir minn skrifaði Hjalta Litla svo þessi færsla er mér sérlega hjartkær!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.4.2007 kl. 01:03
Bækur eru frábærar og spurningin er, hvernig þykir þér best að lesa þær? Ertu með góða les aðstöðu? Er líka með þennan genagalla að kaupa alltof mikið af bókum. En hef aldrei lesið þær á einum góðum stað, alltaf á hlaupum, í lestum eða í aftursæti bíls...
Ólafur Þórðarson, 22.4.2007 kl. 05:12
Mér finnst gott að lesa bækur í ró og næði. Annaðhvort í herberginu uppi eða þá niðri í stofu. Er með ágætis lesaðstöðu. Hef samt stundum svo mikið að gera í vinnu og félagsmálum að ég hef ekki alltaf mikinn tíma til að lesa.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 22.4.2007 kl. 08:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.