28.3.2007 | 18:36
Stuðningskerfi náttúrunnar
Margir eru þeir sem halda því fram að náttúran hafi ekkert gildi í sjálfu sér. Hér eftir mun ég fjalla nokkuð um hin mörgu mismunandi gildi náttúrunnar. Í fyrsta lagi ber að nefna gildi náttúrunnar sem stuðningskerfis samfélagsins. Öll samfélög manna eru mjög háð þjónustu náttúrunnar og þótt allt umhverfi okkar sé orðið að miklu leyti manngert þá erum við samt háð náttúrunni. Maðurinn fær frá náttúrunni loft, vatn, sólskin, ljóstillífun, niðurbrot örvera, sveppi, jarðveg, loftslag og margt margt fleira. Vistkerfið liggur ætíð á bakvið menninguna og maðurinn er hluti af vistkerfi jarðarinnar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Eldri samfélög mannsins hugsuðu aldrei mikið um náttúruna vegna þess að þau höfðu lítil áhrif á hana. Nútíma hátæknisamfélög hafa hinsvegar gríðarleg áhrif á náttúrulegt umhverfi og hafa nú þegar breytt hringrásum efna um jörðina. Inngrip okkar í náttúruna hefur bein áhrif á líf og afkomu fólks og þessvegna eru umhverfismál fyrst og fremst siðferðislegs eðlis. Manneskjur deyja á degi hverjum vegna vatnsmengunar og þess hvernig við mennirnir göngum um okkar náttúrulega umhverfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.