20.3.2007 | 11:58
Að treysta öðrum.
Öll lendum við í því á lífsleiðinni, hversu sterk og dugleg sem við erum, að þurfa að treysta öðrum. Kannski fáum við hjartaáfall einn daginn og þurfum að treysta læknum og hjúkrunarfólki til þess að sinna okkur. Við myndum ekki heldur stíga inn í flugvél nema vegna þess að við treystum flugmanninum til þess að fljúga. Þegar við skoðum hlutina nánar byggir öll veröldin á trausti og kærleika. Okkur er treyst til þess að vinna ákveðið verk í vinnunni. Manneskjan er í þessum skilningi alls ekki sjálfri sér nóg. Um daginn var ég um kvöld eitt í Düsseldorf og þurfti að komast til Bonn. Lestirnar voru farnar, það var farið að dimma og mér leist ekki allskostar vel á það fólk sem hékk á lestarstöðinni. Ég þurfti á aðstoð að halda en hverjum átti ég að treysta ? Á endanum ákvað ég að treysta leigubílstjóra nokkrum. Ég bað hann um að aka mér til Bonn. Í ljós kom að maðurinn var eðlisfræðingur og Kúrdi og ræddum við lengi um samskipti manna á milli, um ólík trúarbrögð, vísindin og þá staðreynd að öll erum við sköpuð til þess að njóta réttlætis og virðingar. Ég hafði ákveðið að treysta þessum ókunna manni og hann ók mér til Bonn, beint á hótelið og þegar við kvöddumst tók hann í hönd mér, táraðist og þakkaði mér fyrir samtalið. Sú hugsun flaug í gegnum huga minn að Almættið hefði beinlínis viljað að ég hitti þennan mann. Þannig þurfum við oft að treysta öðrum án þess að hafa nokkuð í höndunum og til þess þarf ákveðið hugrekki. Það hugrekki verðum við að finna innra með okkur. Og við skulum ekki gleyma því að Guð treystir á okkur.
Athugasemdir
"http://www.oakbridge.org/transcripts/viewpoint_March_07.html " Kv.
Vilborg Eggertsdóttir, 20.3.2007 kl. 15:04
Þetta fannst mér skemmtileg saga. Við eyðum oft svo miklum tíma í að pirra okkur yfir einhverju sem er ekki að virka í samfélaginu - t.d. strætóinn er of seinn, einhver svíkur okkar, segir ekki satt og þar fram eftir götunni. Það er góð hugaræfing að snúa þessu við, og velta fyrir sér hvað er í raun furðulegt hvað margt gengur upp og hve margir segja satt og standa við orð sín.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 15:54
Það er gott að treysta
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.3.2007 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.