Um hugrekki

Hugrekki er það mikilvægasta sem nokkur manneskja getur haft til að bera. Að lifa án hugrekkis er eins og að tapa aftur og aftur og geta aldrei litið glaðan dag. Margir hugrakkir einstaklingar setja svip sinn á mannkynssöguna, þar á meðal Gandhi, Nelson Mandela og Alexander Solsjenitsyn. Gandhi sagði að enginn málstaður væri þess virði að drepa fyrir en margir málstaðir þess virði að deyja fyrir. Það er líka til mikið af hversdagshetjum sem berjast við fötlun og sjúkdóma þótt ekki verði nöfn þeirra skráð í sögubækur.
Í Nürnberg réttarhöldunum eftir lok síðari heimstyrjaldar var staðfest að hver og einn maður ber ábyrgð á gjörðum sínum. Það er ekki hægt að nota þá afsökun að maður hafi bara hlýtt skipunum. Það að gera ekki neitt, að hafa enga skoðun og samþykkja ríkjandi ástand er líka ákveðin siðferðisleg afstaða.
Umhverfismál eru fyrst og fremst siðferðislegs eðlis. Þau fjalla um þá siðferðilegu afstöðu sem við tökum til náttúrunnar. Þeir sem vilja vernda náttúruna taka ákveðna afstöðu og þeir sem vilja eyðileggja hana taka einnig ákveðna afstöðu. Vandi umhverfisins er fyrst og fremst siðferðislegur vandi.
Náttúran er í eðli sínu minnimáttar á sama hátt eins og börn, sjúkir eða aðrir minnihlutahópar. Eyðilegging náttúrunnar er ofbeldi sambærilegt við ofbeldi gagnvart börnum. Dýrin og jurtirnar geta ekki varið sig. Þessvegna er svo mikilvægt að til séu umhverfis- og náttúruverndarsamtök sem verja náttúruna og tala máli hennar gagnvart þeim öflum samfélagsins sem stuðla sífellt að niðurrifi og eyðileggingu. Í raun og veru ætti líka að vera til umboðsmaður náttúrunnar sem gegna myndi sama hlutverki og umboðsmaður barna. Gleymum því ekki, að náttúran getur ekki varið sig sjálf.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr  Góð færsla til að lesa - svona rétt fyrir svefinn. Annars er ein uppáhaldssetningin mín um hugrekki úr bókinni Bróðir minn ljónshjarta: "Sumt þarf maður bara að gera, því ef maður gerir það ekki er maður bara lítið skítseiði" (skrifað eftir minni - en hugsunin er allavega einhvernvegin svona). Góðar stundir.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 21:52

2 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Paul Tillich...The courage to be!

Ingibjörg, þú ert hugrökk ...og ALGER PERLA 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 8.3.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband