Stjarnan

Unga parið hafði misst fóstur. Þau voru alltaf að rífast. Það var þessi ægilegi tómleiki, þessi hræðilega sorg  og þessi napri vetrarvindur sem næddi í kirkjugarðinum þar sem þau stóðu og horfðu þögul á litla krossinn sem stóð á litla leiðinu í duftkirkjugarðinum.

Þau höfðu bæði grátið úr sér augun, en forðuðust þó að láta hitt sjá þegar þau voru að gráta. Þau bitu á jaxlinn, innibyrgðu sársauka sinn og ýttu honum lengst ofan í svartan kassa sem var geymdur neðst í undirmeðvitundinni. Strákurinn var alltaf með hausverk og hann var hættur að geta einbeitt sér í vinnunni. Stúlkan fékk endalaus kvíðaköst og svitnaði í lófunum. Fjármálin voru öll að fara í vaskinn og samband þeirra var sömuleiðis fyrir löngu farið í hundana.

Það var einungis þegar þau stóðu þögul við litla leiðið í kirkjugarðinum sem þau tókust ósjálfrátt í hendur og föðmuðu hvort annað. En þau gátu ekkert sagt. Öll orð voru löngu þornuð upp í kverkunum og ekkert var eftir nema eitthvað hást hvísl sem komst aldrei alveg fram á varirnar.

Það var Þorláksmessukvöld. Þau nenntu ekki að setja upp jólatréð. Strákurinn sat og horfði á sjónvarpið eins og í leiðslu og stelpan var óvenju þreytt og lagðist upp í sófa með skoskt ullarteppi. Þau voru hætt að sofa í sama rúminu. Ástæðan fyrir því að annað hvort þeirra gekk ekki bara út, var sú að þau höfðu engan betri stað til að fara á. Það var ekkert þarna úti nema köld heimskautanóttin sem hvelfdist yfir norpandi borgina.

Strákurinn slökkti á sjónvarpinu um tvöleitið að nóttu og fór inn í svefnherbergi. Stúlkan svaf kyrr í sófanum í stofunni. Allt var hljótt.

Stúlkan rumskaði. Henni fannst hún heyra eitthvað hljóð. Allt í einu finnur hún litla hönd taka í hönd sína og heyrir mjúka barnsrödd segja greinilega. – Elsku mamma, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég hef það gott. Stúlkan hrökk upp og horfði út um gluggann út í stjörnubjarta vetrarnóttina. Hún skalf og að henni setti mikinn grát, en síðan var eins og yfir hana færðist ró. Hún sá skæra stjörnu sem skein úti í vetrarnóttinni. Hún fann allt í einu langþráðan frið setjast að í sál sinni.

Um morguninn reis hún á fætur eins og fuglinn Fönix, tók kápuna sína, pakkaði ofan í töskuna og gekk hljóðlega út um dyrnar. Hún myndi tala við strákinn síðar. Hún ætlaði að halda áfram að lifa.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband