Ferðalag

Ég kippi mér ekki upp
við straum tímans,
við vinsældir dagsins,
eða sorgir morgunsins.

Ég er á eilífu ferðalagi,
hvað skipta mig hundrað ár,
hvað skiptir mig sandur
sem rennur gegnum tímans glas.

Ég ferðast með
lítinn farangur,
tek ekki of mikið með mér
á ferð um þennan heim.

Því ferðalagið er langt,
drjúgur vegur framundan,
fjöll að klífa,
gil að skrönglast um
dalverpi og hæðir.

Ég græt ekki hrukkur og elli,
græt ekki árin að baki,
lít ekki til baka,
verð ekki að salti
og græt ekki
söltum tárum.

Augu mín horfa fram á við,
þau greina litfagrar stjörnuþokur í fjarska,
aðrar veraldir,
aðra heima,
aðrar víddir,
kvasara og útvarpsvetrarbrautir
svarthol og vetrarbrautarþyrpingar.

Ég heyri enduróm upphafs og enda,
bergmál alheimsins,
ruach, andardrátt Guðs,
og
ég stíg létt til jarðar
á leið minni
inn í
botnlausa
eilífðina.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband