
Ólukkans vesen að vera svona glaðvakandi. Klukkan að verða tólf, hroturnar í naggrísnum bergmála um húsið en ég er bara alls ekki á leiðinni að sofna. Svona er að lifa spennandi lífi. Eða er þetta eitthvað sem fylgir aldrinum ? Rithöfundurinn Vladimir Nabokov þjáðist af svefnleysi. Hann notaði næturnar til þess að semja flóknar skákþrautir í anda Capablanca og Laskers. En hann var líka fluggáfaður eitthvað annað en ég sem er svona misgáfuð sem er eitthvað í anda við misþroska bara eitthvað allt annað og alls óskylt. Ég er ein af þessu fólki sem aldrei fellur inn í hópinn. Ef ég fæ kvef, þá er það ódæmigert kvef. Ef ég reyni að fara handahlaup þá fæ ég krampa í fótinn og lendi á litlu tá hægri fótar með miklum harmkvælum. Mér hefur aldrei tekist að standa á höndum þrátt fyrir margvíslegar tilraunir og mikinn vilja. Hins vegar get ég stundað gönguferðir - guði sé lof, og ég var bara góð á skíðum á meðan hægt var að stunda skíði á Íslandi en það er nú liðin tíð. Þessvegna fannst mér frábær hugmynd þegar kennari nokkur talaði um að það þyrfti að koma upp sérkennslu í leikfimi. Sérkennsla í leikfimi! Þvílík snilld. Það hefði akkúrat verið það sem ég þurfti þegar ég var tólf ára. En í dag verð ég að nota næturnar í það að lesa yfir bókina um Samuel Reshevsky eða glugga í Informator. Ef ég nú bara skildi eitthvað í skák! Snýst þetta ekki allt um það að ná valdi yfir miðborðinu og sækja fram á vinstri væng ? Spyr sá sem ekki veit. Góðar stundir!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.