
Menn rembast eins og rjúpan við staurinn til þess að reyna að útskýra hlýnun loftslags án þess að hún sé vegna mengunar af mannavöldum. Danskur vísindamaður hélt því fram fyrir stuttu síðan að útgeislun frá sólu væri að aukast og það gæti skýrt hlýnun loftslags á jörðinni. Þegar kenning þessa ágæta dana var skoðuð nánar af jafningjum hans (peer review) kom í ljós að útgeislun sólar hefur aukist um 25% frá því að sólkerfið myndaðist fyrir um 4600 milljónum ára. Hins vegar getur þessi aukna geislun sólar ekki skýrt nema um 30% af mældri hlýnun jarðar. Þannig er ljóst að skýringanna verður að leita annarsstaðar og er nærtækast að líta á þær mengandi gróðurhúsalofttegundir sem þegar eru í andrúmsloftinu. Í raunvísindum gildir að einfaldasta skýringin er yfirleitt rétt, svokölluð rakvél Occams. Það er því í mínum huga engin ástæða til þess að flækja málin með einhverjum útúrdúrum. Það eru einfaldlega gróðurhúsalofttegundirnar sem halda hita á jörðinni þ.m.t. vatnsgufa í andrúmsloftinu.
Athugasemdir
Hérna er smá útúrdúr um gróðurhúsalofttegundir og vatnsaflsvirkjanir :
http://environment.newscientist.com/channel/earth/dn7046-hydroelectric-powers-dirty-secret-revealed.html
Pétur Þorleifsson , 22.2.2007 kl. 03:42
Hversu mikið magn CO2 er bundið í jöklum og ís? Getur verið að þegar jafnvæginu er raskað verði keðjuverkun sem flýtir fyrir áhrifum þeim sem við erum nú að verða vitni að? Vita menn fyrir víst hversu hratt ísöld lagðist yfir. Eru ekki til skepnur sem virðast hafa frosið í hel svo gott sem samstundis? Er mögulegt að veðurfarsbreytingar á borð við þær sem við höfum séð að undarförnu geti magnast og haft þau áhrif á gróður og grænþörunga að binding CO2 gæti snar fallið með tilheyrandi röskun á lífkeðjum. Er mögulegt að óeðlileg hlýnun sé undanfari mikillar og skyndilegrar kólnunar?
Er ekki rétt skilið hjá mér að súrefnisþéttni andrúmsloftsins var mun hærri á tíma risaeðla eða um 36% en einungis um 21% í dag. Getur það skýrt tröllslegan vöxt þeirra og ýmissra annarra stórgripa þess tíma og er mögulegt að skyndileg súrefnisþurrð eða fall niður fyrir 30% hafi gert það að verkum að stærstu kvikindin hrukku uppaf en önnur smærri náðu að aðlaga sig að breyttum hlutföllum?
Hvað verður mikið til af gróðurhúsalofttegundum við eldgos? Losnar eitthvað af gróðurhúsalofttegundum við jarðrask ss. jarðskjálfta? Er ekki alltaf að gjósa einhvers staðar í sjávardjúpinu? Veit einhver hversu mikið af gasefnum verða til þannig?
Ég er afar hlynntur öllum aðgerðum til bættrar umgengni um náttúruna og þakka þér fyrir áhugaverð skrif.
GLG (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.