21.2.2007 | 16:15
Hamfarir í Heiðmörk.
Hvað er að gerast í Heiðmörkinni ? Verktaki sem kann ekki að fara eftir beinni línu ryðst með offorsi í gegnum trjáreiti margra félagasamtaka án framkvæmdaleyfis. Hvernig var eiginlega eftirliti með verktakanum háttað ? Datt engum í hug að hringja í Reykjavíkurborg og spyrja hvernig framkvæmdaleyfinu liði ? En málið er dýpra og gruggugra en halda mætti við fyrstu sýn. Hver var eiginlega tilgangurinn með þessari vatnsleiðslu sem átti að leggja þarna ? Málið er að Kópavogsbæ er farið að vanta byggingarland og Gunnar Birgisson horfir nú hýru auga til þess að malbika Heiðmörkina og reisa á henni nýja íbúabyggð. Kópavogsbær ætlar að byggja í Lækjarbotnum og af hverju ekki að taka bara Heiðmörkina eins og hún leggur sig og valta yfir hana ? Er það ekki framtíðarsýn Kópavogsbæjar ? Með þessari drulluframkvæmd sinni í Heiðmörk lýsa Kópavogsbúar sig tilbúna til þess að slátra vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar í einum grænum. En hvar á höfuðborg Íslands þá eiginlega að fá vatn ? Jú, Gunnar Birgisson virðist horfa kátur til þess að hægt verði að leggja risavatnsleiðslu um Mosfellsdalinn frá Þingvöllum til Reykjavíkur. Sú risaframkvæmd yrði bæði ljót og dýr, en verktakarnir myndu fá svaka pening og hvað er Gunnar Birgisson annað en enn einn skítugur verktaki.
Athugasemdir
Hvernig gat þetta gerst í Heiðmörkinni?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.2.2007 kl. 21:33
Ég held að þetta sé hárrétt greining á "földum markmiðum" (hidden agenda) bæjarstjórans í Kópavogi, sem lætur nú sem endranær stjórnast af afar annarlegum hagsmunum, sem flestir tengjast eigin verktakastarfsemi.
Sennilega hefur hann ætlað að nýta sér leiðitaman hreppstjóra Reykjavíkur og ráðgjafa hans (Jón Kristin Snæhólm) til þess að komast yfir allt Heiðmerkursvæðið á næstu árum, til að geta tengt saman landfræðilega Vatnsendahverfið í Kópavogi og fyrirhugað 'Lækjarbotnahverfi' Kópavogs, við Suðurlandssveg.
En jafnframt bregður þetta mál ágætu ljósi á þann kostnaðarsama skrípaleik, að vera með mósaík af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þegar hægt væri að sameina þá í færri, skilvirkari og gegnsætt reknari einingar.
Vésteinn (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 00:25
Kópavogsmenn hafa því miður verið í forystusveit jarðýtudólga undanfarin ár. Lítið er orðið eftir af skógi sem ræktunarmenn þar í bæa hafa komið upp með ærnu erfiði undanfrin ár og kemur fyrir lítið þótt bæjarstjórinn láti mynda sig við að afhenda þeim skaðabætur. Reykjavík er heldur enginn engill. Sú var tíðin að borgin gróðursetti hundruð þúsunda trjáplantna á ári. Nú er sama tala örfáir tugir þúsunda. Borgin hefur tekið stór svæði af Skógræktarfélaginu og ýmist lagt þau undir byggingar (Grafarholt) eða áformar það (Hólmsheiði). Engin ný svæði eða plöntun hefurkomið í staðinn. Og þótt Skógræktarfélagið hafi náð umsjón með stórum svæðum frá ríkinu (Esjuhlíðar) hefur borgin ekki lyft litlafingri félaginu til aðstoðar. Fleira mætti tína til en verður ekki gert að inni. Það skal tekið sérstaklega fram, að hér er ekki sneitt að neinum flokki, allir eru á sama báti í þessum efnum.
Sigurður G. Tómasson, 24.2.2007 kl. 11:22
Mér var að berast eftirfarandi ljóð, nýlega ort af ókunnum höfundi:
Heiðmerkurljóð
Gunnar hefur holdin best
hulin vænni puru
Sagður elska ýtur mest
en ekki greni og furu
Kópavogi ríkur réð
með ráðslag allt til sóma
Undirhöku hnellna með
og heldur digurróma
Reykjavík er ríki eitt
sem ræflar einir byggja
og gera flestum lífið leitt
og landsmenn aðra hryggja
Dólgar réðu veitu vatns-
og vildu á henni græða
Þá mælti Gunnar mikið hvass:
"Vér munum eigi blæða"
Sendi ýtur allar skjótt
- ítem gröfur vænar -
upp í Heiðmörk undir nótt
og atti á hlíðar grænar
Það frétti peysu- lopa- lið
og lagsmenn kommónista
og upphóf skjótt að sínum sið
að senda kærulista
Engra griða Gunnar bað
- geystist skjótt í slaginn -
féndur alla í kútinn kvað
í Kastljósi um daginn
Skelfir Gunnar skógarmenn
sem skæður refsilogi
Sílspikaður situr enn
í sæmd í Kópavogi
Vésteinn (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.