Af hverju er svifryk hættulegt ?

Fyrir fimmtán árum síðan sat ég á skólabekk í Svíþjóð og lærði allt um svifryksmengun sem hægt er að vita. Svifryk var þá þekkt vandamál í sænskum borgum eins og Gautaborg og Malmö. Síðan kom ég heim til Íslands og sá að Reykjavík var full af svifryki en viti menn - enginn á Íslandi hafði hugmynd um hvað svifryk var. Þessvegna var fenginn verkfræðistúdent til þess að gera verkefni um svifryk á Íslandi og síðan að skýrsla hennar kom út hefur svifryksumræðan legið í loftinu.
En af hverju er svifryk hættulegt? Mannslíkaminn er aðlagaður að grófu náttúrulegu svifryki eins og t.d. jarðvegsögnum, salti og öðru slíku. En mjög fínar svifryksagnir sem koma helst frá bruna eða útblæstri bifreiða berast ofan í lungu fólks. Þessum fínu ögnum getur fólk ekki hóstað upp. Þannig fara svifryksagnir niður í lungnablöðrurnar, leysast þar upp og efnin í svifrykinu fara inn í blóðið. Efni í svifryki er ekki hollusta enda er um brennd olíuefni að ræða.
Þeir sem eru í mestri hættu vegna svifryks eru asthmasjúklingar, eldra fólk og svo og börn. Hjólreiðamenn geta einnig verið í hættu þegar þeir hjóla meðfram miklum umferðaræðum og anda djúpt að sér. Svifryk getur einnig borist inn í bíla í gegnum miðstöðina eins og margir þekkja sem lent hafa á eftir vörubíl með illa stillta vél.
En hvað er þá til ráða? Mikilvægt er að minnka notkun nagladekkja en einnig skiptir máli að stilla bílvélarnar þannig að útblástur sé ætíð sem minnstur. Minnka skal bílanotkun eins og kostur er og í skipulagningu borga verður að gæta þess að leggja göngustíga eins langt frá akbrautum eins og mögulegt er. Gangandi vegfarendur skulu halda sig eins mikið frá umferðinni og hægt er. Það munar um hvern metra sem maður er í öruggri fjarlægð frá götunni.
Ég vil því taka undir viðvaranir lækna varðandi svifryk. Við verðum að horfast í augu við það að Reykjavík er orðin stórborg með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Reykjavík er ekki hrein borg!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava S. Steinars

Ónei, hún er ekki hrein !  Ég er búin að keyra í sex mánuði á heilsársdekkjum og þau reynast mér alveg jafnvel og nagladekkin gömlu.  Enda er ég ekki að keyra milli landshluta.  Sorglegt að enn sé fullt af fólki keyrandi um eingöngu innan borgarmarkanna á nagladekkjum, þrátt fyrir þá umræðu sem um málið hefur skapast.

Svava S. Steinars, 10.2.2007 kl. 19:41

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Ok, ekki gott mál. En hvernig leysir líkaminn svifryksfrumeindir, þá þegar þær eru komnir í blóðstraum fólks? Spyr sá sem ekki veit. Fræddu mig - og hina.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.2.2007 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband