Að hugsa útávið

Dostoevsky_1872Rússnesku rithöfundarnir Tolstoj, Dostojevskij og Túrgenév voru meistarar sálfræðilegu skáldsögunnar. Þeir greindu hugsun bæði venjulegs og óvenjulegs fólks með ótrúlega nákvæmum hætti. Það er því ekki að furða að Sigmund Freud hafi lesið rússneskar bókmenntir og var hann sérstaklega hrifinn af verkum Dostojevskijs. Í rússneskum bókmenntum kemur fram sú hugsun að það sé hættulegt að hugsa of mikið og einkum er hættulegt að hugsa innávið. Að hugsa innávið er að hugsa of mikið um sínar eigin tilfinningar og almennt að vera mjög upptekinn af sjálfum sér. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Tolstoj lýsir því að hamingjusamasta fólkið hugsar yfirleitt ekki neitt og þeir sem eru alltaf að hugsa verða að beina hugsun sinni útávið, annars fer fyrir þeim eins og Önnu Karenínu. Kannski má segja að rússnesku meistararnir hafi haft eitthvað til síns máls. Mannshugurinn er flókið og mjög öflugt verkfæri og sé öflugum huga beitt innávið er hætt við að eitthvað láti undan í sálarlífi mannsins. Hins vegar hlýtur það að vera jákvætt að beina öflugum huga útávið til þess að leysa flókin viðfangsefni. Þeir sem hugsa mikið verða því að gæta þess að hafa alltaf nóg fyrir stafni þannig að hæfileikar þeirra komi sem að mestum notum og þeir hugsi útávið. Þannig verður gáfumennskan dygð eins og Þórbergur hefði orðað það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafn Jökulsson

Afar fróðlegt. Og ég skil vel að þú móðgaðist, fyrir hönd Dostojevskys, yfir pistlinum mínum... En hann er okkar maður -- enda sporðdreki!

Hrafn Jökulsson, 28.1.2007 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband